Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 1. 2012 | 21:00

Viðtalið: Ragnar Ólafsson, landsliðseinvaldur

Ragnar Ólafsson, landsliðseinvaldur er mörgum kylfingum kunnur.  Hann hefir t.a.m.margoft verið liðsstjóri íslenskra landsliða, sem keppt hafa erlendis; nú að undanförnu var Ragnar t.d.. liðstjóri íslensku krakkanna sem spiluðu í European Young Masters 23.-28. júlí 2012, í Royal Balaton Golf & Yacht Club, í Balatonudvari, í Ungverjalandi og luku keppni s.l. helgi. Eins var Ragnar liðsstjóri íslensku stúlknanna, sem þátt tóku í European Girls Team Championship í Þýskalandi fyrr í síðasta mánuði, svo  örfá dæmi séu tekin.

Ragnar er mikill GR-ingur; varð m.a. púttmeistari GR 2010 og stýrir karlaliði GR í sveitakeppninni í ár. Kynningin á afrekum Ragnars í golfíþróttinni yrði ansi löng, svo löng að hún er efni í aðra grein. Ragnar gaf sér stund í eftirfarandi viðtal við Golf 1:

Ragnar Ólafsson (t.h.) liðsstjóri krakkanna sem þátt tóku í European Young Masters í Ungverjalandi.

Fullt nafn:  Ragnar Ólafsson.

Klúbbur:  GR.

Hvar og hvenær fæddistu?    Í Reykjavík, 1. september 1956.

Hvar ertu alinn upp?  Fyrstu 6 árin á Akureyri svo í Reykjavík og fluttist í Kópavog á 14. ári.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?  Faðir minn Ólafur Bjarki Ragnarsson er búinn að vera í golfi frá því hann var 15 ára og hann er 78 ára í dag.  Konan vill bara spila golf á Spáni og fá hvítvín á eftir. Ég keypti fyrsta settið handa henni s.l. haust. Svo á ég 3 börn. Elsta dóttir mín býr í Noregi og spilar golf, Hún er gift Sigurgeiri Árna Ægissyni, sem er í landsliðshópi í handbolta. Síðan á ég tvíbura, stelpu Ólöfu Kolbrúnu og strákinn minn Ólaf Bjarka, en þau eru bæði í handbolta, en geta spilað golf. Vinir þeirra voru meira í handbolta. Strákurinn er markmaður í HK og jafnframt leikstjórnandi og skytta. Hann er í landsliðinu.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég byrjaði að spila 12 ára – var í sveit 10-11 ára og missti þ.a.l. af 2 sumrum, en græddi margt annað í staðinn.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Faðir minn var í golfi og ég byrjaði sem kaddý fyrir hann. Ég fékk kók og prins að launum og kannski 1 golfkúlu af og til.

Hvað starfar þú?  Ég starfa í Landsbankanum við rekstrarþjónustu og sé m.a. á innkaup á öllum rekstrarvörum. Ég er búinn að vera í sama starfinu í 33 ár.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Strandvelli. Þeir eru líkari Íslandi. Ég er sérlega hrifinn af skoskum  sjávarvöllum.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Holukeppni, það er meira maður á mann og þá stjórnar maður sjálfur. Þó ég spili minn besta hring á ævinni þýðir það ekki endilega sigur í höggleik.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Grafarholtið  og Jóelinn á Leirunni.

15. flötin á Cypress Point, uppáhaldsgolfvelli Ragnars Ólafssonar, GR, erlendis.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Cypress Point á Pebble Beach í Kaliforníu.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?    „Ásatúnið“ sagði Ragnar og glotti, „ég náði ekki andanum það var svo mikið af brekkum.“

Hvað ertu með í forgjöf?  Í dag er ég kominn upp í 6. Ég var fyrstur á Íslandi í með  O í forgjöf. Ég var með  5,3 en hækkaði upp í 6.

Ragnar Ólafsson náði lægsta skori sínu á Vestmannaeyjavelli Mynd: eyjafréttir.is

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   Lægsta skorinu náði ég í Eyjum, en það voru 66 högg frekar en 65 fyrir 30 árum, í Faxamóti.

Hvert er lengsta drævið þitt?  Það hlýtur að vera upp í Hvammsvík, reyndar  var drævið 220 metra í lendingu, rúllaði niður bakka og á ísilagða tjörn og fékk því 200 metra aukarúll; þannig að það gerðu 420 metra.  En svona raunverulega þá er lengsta drævið mitt í  Grafarholtinu  á 10. þar átti ég dræv inn á flöt. (10. brautin af gulum er 353 metra löng).

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Það merkilegasta er líklega að ég sé ennþá liðsstjóri landsliða, en það er ég búinn að vera  í 18 ár. Það byggist á handsali við Hannes Guðmundsson.

Hefir þú farið holu í höggi?  Já, ég hef 5 sinnum farið holu í höggi. Og ég væri búinn að fara oftar, en hef spilað lítið  og ekki að neinu ráði. Eitt skiptið var á 12. braut, Hænunni í Vestmannaeyjum og svo á 3. braut í Tenerife. Hin komu á Íslandi, stærstu eyjunni í Vestmannaeyjaklasanum.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Oftast djús, samloku með ost og marmelaði eða rabbabarasultu. Síðan er ég yfirleitt með eitt mars í pokanum sem ég skipti í 3 bita og fæ mér 6. hverja holu og 1 banana  (til að fá ekki sykursjokkið).

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Já, fótbolta, borðtennis og körfubolta.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?   Uppáhaldsmatur:  Allur fiskur sem konan mín eldar; Uppáhaldsdrykkur:  Vatn; Uppáhaldstónlist: allt með Stevie Wonder; Uppáhaldkvikmynd: Gladiator, svo er ég Matrix-maður; Uppáhaldsbók:  Ég geri ekki uppá milli golfkennslubókanna 3 eftir Harvey Pennick  og svo er ég að lesa Ösku eftir  Yrsu Sigurðardóttur (kominn á bls. 8).

Ragnar Ólafsson (t.h.) púttmeistari GR 2010. Hér ásamt Önnu Björk Birgisdóttur púttdrottningu GR sama ár. Mynd: grgolf.is

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Mér líkaði vel við sveiflu Sam Snead og af konunum er Annika Sörenstam í uppáhaldi.

Hvert er draumahollið?    Það erum við Sam Snead, Greg Norman og Seve Ballesteros. Ég hef farið í sturtu með Seve, en það var í  heimsmeistaramóti sem við  Bjöggi Þorsteins lékum í, á Kwak Kwak golfvellinum í Filipseyjum.  Hvað Greg Norman varðar þá man ég helst eftir honum þannig að kúlurnar hans fóru fram úr mínum kúlum á æfingasvæðinu á Hawaii, þ.e. golfvelli á Maui í Princeville.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Ég er með PING-járnasett; Titleist dræver, PING 5-tré, Titleist 7-tré, PING pútter Sing . Ég fékk þann pútter á heimsmeistaramóti 1981 sem við Siggi P. fórum á.  PING var með kynningu á vörum sínum og við þátttakendurnir máttum taka það sem við vildum og þannig eignaðist ég pútterinn minn og hef verið með hann síðan.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Ég hef ekki keppt lengi, þ.e. ég hef ekki keppt síðan 1994. En ég var hjá nokkrum góðum golfkennurum t.d. John Nolan, John Drummond, Sigurði Péturssyni og John Garner.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei, ég er frekar forlagatrúar átti t.d. uppáhaldspeysu sem ég var alltaf í allt þar til kom gat á olnbogann.  Það flokkast kannski ekki undir hjátrú en maður var alltaf að reyna að gera það sama fyrir mót, hélt sínu vanaferli.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?  Meginmarkmiðið er að geta spilað golf alla ævi og hafa heilsu til þess. Í lífinu er það bara að vera réttsýnn, réttlátur og sanngjarn.

Hvað finnst þér best við golfið?   Það er tvíþætt: félagsskapurinn og einveran.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  70%

Að lokum: Ertu með eitthvert gott ráð handa kylfingum?  Já, það eru orð sem ég las einhvern tímann sem lokaorð í skýrslu: „Alla dreymir um afrek í golfi en þeir sem æfa, upplifa þau!“