Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 6. 2011 | 18:00

Viðtalið: Unnur Ósk Valdimarsdóttir, GSG.

Viðtalið í dag er við Unni Ósk Valdimarsdóttur, elsta meðlim GSG, en klúbburinn fagnaði 25 ára afmæli sínu í ár. Unnur tók 1. höggið þegar 9 holu golfvöllurinn var vígður og líka nú í vor þegar nýi, glæsilegi 18-holu Kirkjubólsvöllurinn var vígður. Frá því að Unnur Ósk byrjaði í golfi í Sandgerði hefir mikið vatn runnið til sjávar. Hér fara nokkrar spurningar sem Golf 1 lagði fyrir Unni s.l. sumar (nánar tiltekið 10. júlí 2011) og svör Unnar:

Fullt nafn: Unnur Ósk Valdimarsdóttir.

Klúbbur: GSG

Hvar fæddistu? Ég fæddist í Sandgerði 30. maí 1931 og varð því 80 ára nú í vor.

Hvar ertu alin upp? Ég ólst upp í Reykjavík og átti heima á Freyjustígnum, Grundargötu og Leifsgötunni. Stefán Jónsson var kennarinn minn í Austurbæjarskóla og  árgangurinn minn hittist enn reglulega. Við förum t.d. alltaf í jólahlaðborð og kaffi í Perlunni og 1 sinni á ári í ferðalag. Í fyrra skipulagði ég t.d. ferð um Suðurnesin.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – eru einhverjir í fjölskyldunni í golfi?  Ég hef verið ekkja í 30 ár – Maðurinn minn dó 52 ára gamall.  Ég á 1 dóttur. Hún er ekki í golfi en styður mann sinn og son sem eru mikið í golfi. Hún býr í Sandgerði og tekur stundum allt í gegn í golfskálanum.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvað varð til þess að þú byrjaðir?  Það var árið 1980 í Öndverðarnesi. Já það byrjaði allt í Öndverðarnesi. Ég fór á völlinn með mági mínum og var með golfsett, sem gekk ekki út í happadrætti. Hann hringdi og spurði hvort ég vildi ekki kaupa settið af honum, sem ég og keypti – þetta var Spalding sett. Ég spilaði síðan mikið í Leirunni því það var enginn völlur í Sandgerði.  Þetta var auðvitað ófremdarástand og við ákváum að byggja okkar eiginn völl. Við héldum fyrsta fundinn heima hjá Benna – Benedikt Gunnarssyni – tengdasyni mínum. Við leituðum fyrir okkur að hentugu vallarstæði og fengum leyfi til að vera inni á Vallarhúsum, ef við værum ekki fyrir strákunum því fótboltavöllurinn var þarna líka. Við byrjuðum á að fara með sláttuvél til að útbúa greenin, majonesdollur voru holurnar og ég saumaði fánana. Þarna byrjuðum við – slógum og rökuðum með hrífum og fylltum upp í gjótur og reyndum að laga til lítinn golfvöll.

Unnur Ósk Valdimarsdóttir á tröppunum heima hjá sér 10. júlí 2011. Mynd: Golf 1.

Hver er hannaði golfvöllinn hjá GSG?  Friðrik Andrésson, mágur minn. Við fengum hann til að mæla út þegar við vorum að byrja. Hann þjálfaði okkur síðan því hann var mikið í golfinu. Við vorum þarna fyrst að leika okkur innan um hestana. Hestamenn voru ekki sáttir og stundum  var búið að eyðileggja öll greenin. Þetta var svolítið stríð fyrst.

Hvað starfaðir þú?  Ég var fyrst húsmóðir og ég vann í fiski. Árið 1974 var ég beðin að taka við handavinnukennslu í grunnskólanum og vann við það í 27 ár. Í 15 ár var ég með 6 ára bekkinn.

Nú tókst þú fyrsta höggið á 9 holu vellinum í sandgerði og síðan líka þegar hann var stækkaður í 18 holu völl. Hvernig stendur á því?  Nu ég var eina konan þegar við leitum að vallarstæði og var síðan með þeim í golfinu. Það var oft spurt: Hefur þú ekkert annað að gera en að vera í golfi?  Þegar skólinn var búinn gat ég farið í golf.

Hvort kanntu betur við skógar- eða strandvöll?   Það er gaman að spila þá báða. Mér finnst líka gaman að spila golfvöllinn á Hellu því hann er svolítið öðruvísi.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Mér er sama hvort heldur er. Mér fannst alltaf gaman í mótum. Bara að fá að vera með. Svo er ég er búin að vera í mörg ár í púttklúbb í Keflavík og er enn.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Ég hef ekki farið á marga velli. Fyrsta golfmótið, sem ég fór á var á Hvaleyrinni (1980). Það var kvennamót, sem kona úr austur í Hafnarfirði stóð að og  við fórum ég og systir mín. Við fórum með það hugarfar að við fengjum að spila saman, en við fengum ekki að vera saman í holli. Ég man ekki hvað konurnar hétu en þær voru elskulegar og góðar og sögðu mér til hvernig völlurinn lá og ég man að mér gekk þokkalega. En svo við komum nú aftur að spurningunni þá er uppáhaldsvöllurinn að sjálfsögðu Sandgerðisvöllur, það er búið að breyta honum svo mikið frá því að við byrjuðum, en þar ég þekki hvern krók og kima.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Ég man ekki hvað völlurinn hét í Dublin sem við spiluðum. Barnabarnið mitt, Bjarni Benediktsson, þá 12 ára, vann ferð þangað og  hann bauð ömmu sinni  að koma með. Ég og dóttir mín (Guðbjörg Bjarnadóttir) fórum með.  Bjarni var voða duglegur í golfi og fékk mörg verðlaun  og foreldrarnir fylgdu honum.

Hvað ertu með í forgjöf?  Ég er með 36 í forgjöf. Ég varð fyrir því að missa systur mína þannig að ég hef verið löt að fara í golf nú undanfarið.

Hefur þú verið hjá golfkennara? Nei, aldrei en mágur minn kenndi mér. Það voru eitt sinn tímar upp í íþróttahúsi og hann var með okkur þar.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   Ég hef ekki lagt það á minnið.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Ég hef engar rósir sem ég get státað mig af. Ég hef alltaf  bara viljað fá að vera með og hafa gaman af.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Ég er aldrei með neitt nesti. Ég tek helst með mér  vatn á flösku – þarf ekki annars með.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Nei, ekki neinu. Hins vegar byrjaði ég í haust í boccia og hef verið suður í Miðhúsum. Það er rosagaman.

Hver er uppáhaldsmatur, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?  Uppáhaldsmaturinn minn er allur íslenskur matur; uppáhaldsdrykkur var alltaf mjólk og vatn – ég drekk lítið öl og vín smakka ég ekki og hef aldrei reykt.Uppáhaldstónlist: Mér finnst öll músík skemmtileg – t.d. harmónikkulög; Uppáhaldskvikmynd: Ég er ekkert mikið inni í því og fer sárasjaldan í bíó; Uppáhaldsbók: Ég er alæta á bækur, mér finnst voðalega gaman að lesa svona bækur þar sem verið er að segja frá. Ég les mikið, t.d. um handavinnu.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing? Mér dettur enginn kvenkylfingur í hug. Uppáhaldskylfingurinn minn hefir alltaf verið  Seve Ballesteros. Ég var svo heppin að hafa farið til Svíþjóðar eitt sinn og séð Seve spila.  Ein af kúlunum hans  lenti rétt við fæturnar  á mér og mig langaði helst til að grípa kúluna og eiga, en það mátti auðvitað ekki.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Í pokanum mínum er kylfurnar, úlpan mín, eitthvað til að hafa um hálsinn og bókin, sem ég skrifa í. Svo eru kúlurnar og hanskinn. Ég reyni að vera með eins lítið og hægt er – þoli alls ekki mikið drasl í pokanum. Uppáhaldskylfan mín er 3-tréð.

Ertu hjátrúarfull í golfinul? Nei.

Hver er meginmarkmið í lífinu? Það er að hafa góða heilsu og að ég og mitt fólk hafi það svona þokkalegt.

Hvað finnst þér best við golfið? Samskiptin að vera með fólkinu útiveran – alltaf hægt að fara einn inn á völl og maður hittir alltaf einhvern og maður getur líka spilað einn

Hver finnst þér helsta breytingin frá því að þú byrjaðir? Það er orðin mikil breyting. Hér áður fyrr þegar við vorum að byrja unnu allir og voru boðnir og búnir til að vinna, það var mikil samstaða. Núna er margir hættir, sem voru með þegar við byrjuðum. Það sem mér finnst ekki hafa farið aftur er að allir eru enn snyrtilega til fara á golfvellinum en útbúnaðurinn er orðinn betri og líka klæðnaðurinn t.d. útbjuggum við boli með GSG merki og peysur og svo voru síðan voru saumuð nöfn í.

Að lokum ert þú með gott ráð til yngri kylfinga? Já, það eiga allir að vera kurteisir og ganga vel um völlinn og það líka þó að allt gangi ekki upp. Það má ekki slá kylfunum niður;  það er hryllilegt að sjá það þegar reiðin er látin bitna á kylfum eða þeim kastað. Eins á ávallt að sýna þeim sem maður spilar með kurteisi og virðingu.

Að síðustu:

Spurning frá síðusta kylfing (Guðna Oddi Jónssyni, GS)  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Hvað lagarðu venjulega mörg boltaför á hring?   Svar  Unnar Ósk:  Það fer bara eftir því hversu mörg boltaför ég sé – geri við þau sem ég sé – reyni alltaf að gera við líka torfusneppla – mér finnst ljótt að sjá þessi sár.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning Unnar Ósk Valdimarsdóttur, fyrir næsta kylfing:  Hvernig finnst þér að vera í golfi – hefur þú ánægju af golfi?