Nökkvi Gunnarsson
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 21. 2011 | 09:00

Viðtalið: Nökkvi Gunnarsson, NK

Nökkvi Gunnarsson, golfkennari í NK, vann í gær, 20. desember 2011, glæsilegan sigur á Open Golf America (OGA) Tour, sem er mótaröð í Flórída. Hann er nú staddur í Flórída til þess að bæta við sig námi í golfkennaranum auk þess sem hann tekur þátt í OGA Tour og Florida Professional Golf Tour, en mót á þeim mótaröðum eru aðallega haldin á svæðinu milli Tampa og Orlando.

Í viðtali við Nökkva kom fram að hann hefði lítinn tíma til golfleiks á sumrin vegna þess að þá væri háannatími hjá sér í að kenna golf. Engu að síður tók Nökkvi þátt í nokkrum mótum með góðum árangri í sumar og er þar skemmst að minnast að hann sigraði í Einvíginu á Nesinu, afmælisdaginn 1. ágúst 2011, en þann dag varð hann 35 ára. Í viðtali við Golf 1 sagði Nökkvi að í raun hefði hann átt tvöfalt afmæli því hann og eiginkonan, Ellen Rut Gunnarsdóttir áttu líka 18 ára samvistarafmæli. Eins sigraði Nökkvi t.d. á Úrvals-Útsýnar móti NK, 25. júní s.l. og varð í 2. sæti á SKJÁR GOLF OPEN á Urriðavelli sama dag, ásamt Steini Baugi, bróður sínum.  Hér fer viðtal Golf 1 við Nökkva:

Bræðurnir Steinn Baugur og Nökkvi Gunnarssynir á Skjár Golf Open 25. júní 2011 á Urriðavelli. Mynd: Golf 1

Fullt nafn: Nökkvi Gunnarsson.

Klúbbur: NK.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist í Reykjavík, 1. ágúst 1976.

Hvar ertu alinn upp? Hér og þar í Reykjavík, á Laugarvatni; Þegar ég var 9 ára fluttist ég á Seltjarnarnes og hef búið það með hléum. Ég bjó í Noregi 1982-1983; Svo bjó ég  í Danmörku 1998 -1999 og var í Skotlandi 1994-1995. Ég var að læra greenkeeping í Skotlandi og í Danmörku tók ég svokallaðað „Verkstedkursus“, sem er grunnurinn að byggingafræði.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – er einhver í fjölskyldunni sem spilar golf? Ég er kvæntur Ellen Rut Gunnarsdóttur, en við eigum 18 ára samvistarafmæli í ár. Við erum barnlaus. Ellen var að byrja í golfi núna í sumar. Svo eru móðir mín og tengdaforeldrarnir allir tiltölulega nýlega byrjaðir. Bróðir minn, Steinn Baugur er mjög góður golfari og systir mín, Helga Sveina Gunnarsdóttir er svona aðeins að fikta. Hún er farin að slá aðeins og er komin á biðlista í klúbbinn.

Hvað eru margir í NK og hvað er biðlistinn langur eftir að fá að komast inn? Ætli klúbbmeðlimir í NK séu ekki um 640-650 og það eru 340 á biðlista.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? 1990.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Ég fékk vinnu á golfvellinum í Nesklúbbnum.

Hvað starfar þú?  Ég er golfkennari Nesklúbbsins.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Skógarvelli. Þar er betra veður og minni vindur.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Höggleikur. Fyrir mér  er  það golf en ekki holukeppni.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Vestmannaeyjar.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Þá kemur svolítil þversögn – því uppáhaldsgolfvöllurinn minn er linksarinn Carnoustie, af þeim sem ég hef spilað – Augusta er í uppáhaldi af þeim völlum, sem mig langar til að spila.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Skrýtnasti golfvöllur, sem ég hef spilað er  í Skotlandi. Hann liggur í fjallshlíð og langflestar brautir í miklum hliðarhalla. Hann er mjög spes – ég spilaði hann þegar ég var í námi í Skotlandi.

Hvað ertu með í forgjöf?  1.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  Ég hef þrisvar sinnum náð 66 á Hellu og tvisvar á Hvaleyrinni (í móti).

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það var í gær og svo að sigra Einvígið á Nesinu, 1. ágúst í sumar.

Nökkvi Gunnarsson á skrifstofunni í Nesklúbbnum. Mynd: Golf 1.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Ég er yfirleitt með banana og orkudrykk og Corny stöng.

Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Já, var í unglingalandsliði í handbolta og  fótbolta og í golfi á sama tíma. Árið 1999 varð ég Íslandsmeistari með KR í meistaraflokki í fótbolta. Svo hef ég oft orðið Íslandsmeistari með yngri flokkum KR.

Hver er uppáhaldsmatur, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er lambakjöt; uppáhaldsdrykkurinn er vatn; uppáhaldstónlist? Ég er ballöðumaður og euro-poppari; Uppáhaldskvikmynd?: Það er alltaf að breytast, ætli ég segi ekki bara amerískar háskólabíómyndir og uppáhaldsbókin er „Plain Truth for Golfers Masterclass“ eftir Jim Hardy… hún er mjög góð og líka „Golf is a game of Confidence.“

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kvk:  Helgurnar tvær í Nesklúbbnum (ungar stelpur, sem eru efnilegar)   Kk:  Phil Mickelson.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Dræver TaylorMade R11 pro lunch með 75 gr. extra stiff skafti ; R11 3 tré með Ripp 75gr x skafti; 18° TaylorMade blendingur, 3-PW Taylormade MC Tour Prefered með Riffle 6,0 sköftum og svo Taylormade TP xFT 54° og 58° wedge og Yes pútter . Ég er í Ecco skóm með Ecco poka og Ecco hanska. Ég er meira að segja með Ecco tí. Boltarnir sem ég nota er frá  Taylormade. Uppáhaldskylfan er 7-járnið  – það breytist, stundum er það dræverinn stundum wedge-inn fer eftir hvort sveiflan er brött eða flöt á hverju tímabili.

Hvert er lengsta drævið þitt?  Það veit ég ekki – hef ekki hugmynd.

Hefir þú verið hjá golfkennara? Já, ég hef verið hjá Cris O´Connell, sem er þjálfari hjá Matt Kuchar. Einn af tveimur mentorum mínum í golfkennslunni er síðan Jim Hardy.

Nú ert þú sjálfur golfkennari, hvar varstu í golfkennaranámi? Ég útskrifaðist í haust sem PGA kennari, var m.a. á Costa Ballena. Svo er ég með gráðu frá USGTF United States Golf Teachers Federation fully certified teaching pro. Ég hef réttindi til kennslu level 1 hjá Plain Truth, en Plain Truth (golfkennslan) eru samtök og fyrirtæki sem Cris og Jim eiga.  Ég hef verið í level 2 námi hjá Plain Truth nú í desember.

Er eitthvað sérstakt sem þú leggur áherslu á í kennslustundum hjá þér?  Já, það eru tvær tegundir af sveiflum 1Plane og 2Plane. Þær eru  gjörólíkar: 1 Plane er víð og flöt og 2 Plane brött og þröng. Því eru það aðrar hreyfingar og líkamsstöður sem fylgja hvorri sveiflu fyrir sig. Ég vinn út því, með nemendur mína. Það er ekki hægt að kenna öllum sömu stellingu, grip  og hreyfingar, heldur verður að vinna út frá með hvora tegundina af sveiflu þeir eru með.

Einhverjir draumar um Evróputúrinn eða PGA? Nei, ég ætla að einbeita mér að því að verða góður golfkennari og koma einhverjum mönnum  þangað eða konum (á LPGA eða LET).

Hversu stór hluti er andlegi þátturinn í golfleik þínum, þegar þú keppir? 80%

Ertu hjátrúarfullur?  Nei.

Hvert er meginmarkmið í golfinu? Fyrst og fremst að bæta hugarfarið.

Hvert er meginmarkmið í lífinu? Vera góð fyrirmynd og láta gott af mér leiða.

Hvað finnst þér best við golfið?   Það er það að allir geta spilað við alla og með öllum.

Er eitthvað gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?  Já, það er að byrja á að fara í golfkennslu og vera svo bara duglegur að æfa sig – Það þarf að vera duglegur að æfa sig í golfi -Það gerist ekki af sjálfu sér.

Spurning frá fyrri kylfingi:  Hver finnst þér vera efnilegasti kvenkylfingur á landinu ? Ólafía Þórunn er bæði efnilegust og best. Hún er okkar von í kvennagolfinu  – Hún slær langt svolítið eins og strákarnir.  Svo verð ég að nefna Guðrúnu Brá, GK, hún er ung og á framtíðina fyrir sér.

Geturðu komið með spurning fyrir næsta kylfing? Spurning Nökkva:   Ertu 1Plane- eða 2Plane kylfingur?