Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 5. 2012 | 20:00

Viðtalið: Halldór X Halldórsson, GKB

Viðtalið í kvöld er við einn af betri kylfingum í Golfklúbbi Kiðjabergs, sem á rætur sínar að rekja norður í land:

Fullt nafn:  Halldór X Halldórsson  (X-ið er út af millinafni sem ég bara X-aði út).

Klúbbur:  GKB.

Hvar og hvenær fæddistu?  Á Sauðárkróki, 5.apríl 1976.

Hvar ertu alinn upp?  Á Sauðárkróki.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og er einhver í fjölskyldunni sem spilar golf? Ég er einn og á eina dóttur. Ég er hægt og rólega að reyna að koma henni inn í golfið. Ég gaf henni fyrsta settið  og set enga pressa á hana þó það væri æðislegt ef hún ílengdist í golfinu. Dóttir mín heitir Erna Guðrún og er að verða 11.

Halldór X Halldórsson, GKB. Mynd: Í einkaeigu

Hvenær byrjaðir þú í golfi?   Ég er búinn að vera 25 ár í golfi. Ég byrjaði 1987 allaveganna er fyrsti verðlaunapeningurinn síðan þá.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Líklega bróðir minn – ég elti hann.

Hvað starfar þú?  Ég starfa hjá Reikningsstofu bankanna.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Skógarvelli- af því að það er svo ólíkt öllu sem er á Íslandi. Þar gildir nákvæmnin en ekki bara að puðra.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Höggleikur, því  þar skiptir hvert högg máli og það er einbeiting allan hringinn.

Hverjir eru uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi fyrir utan Kiðjabergið?  Grafarholtið  (var í GR í 9 ár) og Hlíðarendavöllur á Sauðárkróki og Hvaleyrin hjá Keili eftir það.

Grafarholtsvöllurinn er uppáhaldsvöllur Halldórs enda var hann í GR í 9 ár – Myndin hér er af 15. flötinni í Grafarholtinu og Básum tekin 1. maí 2012. Mynd: Golf 1

Hver er uppáhaldsgolfvöllur þinn hvar sem er í heiminum nema á Íslandi? ?    Ætli mesta upplífunin hafi ekki verið London Golf Club. (Innskot: Til þess að komast á heimasíðu þessa frábæra golfklúbbs, smellið HÉR:)

Klúbbhús London GC – þar sem uppáhaldsgolfvellir Halldórs eru – Þeir eru reyndar tveir The Heritage, hannaður af Jack Nicklaus og The International hannaður af Ron Kirby.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?     Ekkjufellsvöllur vegna sérstæðra minninga af þeim hring og líka hvað hann kom á óvart, t.d. 8. brautin.

Hverjar eru þessar sérstæðu minningar sem þú átt af Ekkjufellsvelli? Það var þannig að á einni ónefndri braut Ekkjufellsvallar sér maður ekki inn á flöt af teig.  Ég og hollið mitt erum enn inni á flöt þegar slegið er á okkur af þeim sem var á eftir okkur og boltinn lendir á flötinni.  Við merktum boltann og settum hann síðan ofan í holu og fylgdumst síðan með gífurlegum fagnaðarlátum, þegar sá sem sló á okkur taldi sig hafa farið holu í höggi. Auðvitað  sögðum honum síðan frá því, hvernig í málinu lá, við heldur minni fögnuð viðkomandi!

Ekkjufellsvöllur í Fljótsdalshéraði.

Hvað ertu með í forgjöf?  2,3 (Ég hef aldrei tekið golf alvarlega en ætla að gera það í sumar – ég hef aldrei æft mig bara spilað, en mikið á löngum tíma)

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   69 á Leirunni – 2011.

Hvert er lengsta drævið þitt?  Ekki hugmynd – hugsa ekki um það – reyni að slá beint og vera á braut.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það er að fara með Kiðjaberginu upp í 1. deild, átti síðasta púttið sem kom okkur upp í 1. deild.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei.

Hvaða nesti ertu með í pokanum? Kók og samloku.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Já, körfubolta.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?   Uppáhaldsmaturinn minn er lasagna; uppáhaldsdrykkurinn er Glengoyne skoskt Malt Whisky; uppáhaldstónlist: er alæta frá poppi og upp; uppáhaldskvikmyndin er Inception, sem Leonardo di Caprio leikur í og loks get ég ekki svarað því hver uppáhaldsbókin mín er.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn; nefndu 1 kvenkylfing og1 karlkylfing?   KK: Tiger Woods   KVK:   Natalie Gulbis.

Halldór X Halldórsson.                 Mynd: Í einkaeigu.

Hvað er í pokanum hjá þér og hverjar eru  uppáhaldskylfurnar þínar?   Í pokanum hjá mér er dræver, ég er að skipta honum út og er að kaupa nýjan;  3-tré PING Rapture Hybrid: TaylorMade járnasettið 4-PW;   Callaway RAZR X Tour; wedgar Callaway Jaws 52° 56° og 60°. Pútter: PING Crazee hvítur merktur mér. Uppáhaldskylfurnar eru dræverinn eða hybridinn.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Nei.

Ertu hjátrúarfullur?   Nei, en á erfitt með að skipta um kylfur.

Hver er meginmarkmiðið í golfinu og í lífinu? Í golfinu er það að verða betri en ég er í dag og í lífinu að láta gott af mér leiða.

Hvað finnst þér best við golfið?  Útiveran og félagsskapurinn.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?   90%. Andlegi hluti golfsins er mjög mikið mál hjá mér.

Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?    Já, sama hvað gerist ekki gefast upp – Maður verður að halda ró sinni – Það versta sem getur komið fyrir einhvern á hring er að gefast upp.

Spurning frá síðasta kylfingi, sem var í viðtali hjá Golf 1 (Einari Lyng Hjaltasyni, golfkennara): Hefir þú farið í Flight Scope?

Svar Halldórs: Nei, en mig langar rosalega mikið.

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing?

Spurning Halldórs: Stressastu upp þegar þú spilar við betri kylfing?