Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 22. 2012 | 20:00

Viðtalið: Fannar Ingi Steingrímsson, GHG

Fannar Ingi Steingrímsson er 13 ára strákur, sem býr í Hveragerði og æfir golf af kappi. Þrátt fyrir ungan aldur hefir hann spilað á nokkrum bestu golfvöllum í Bandaríkjunum. US Kids er nefnilega að bjóða krökkum og unglingum, sem náð hafa ákveðnum árangri á mót og var Fannari boðið í 3-4 mót. Árangurinn hjá Fannari Inga hefir verið frábær. Hér fer viðtalið:

Fullt nafn:  Fannar Ingi Steingrímsson

Klúbbur:  GHG

Hvar og hvenær fæddistu?  Reykjavík, 7. október 1998

Hvar ertu alinn upp? Í Hveragerði.

Fannar Ingi við ráðhúsið í Gullane. Mynd: Í einkaeigu

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og er einhver í fjölskyldunni, sem spilar golf? Ég bý heima hjá foreldrum mínum og á 1 bróður og  1 systur. Við pabbi erum í golfi og svo mamma svona pínu.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Um Verslunarmannahelgi, haustið 2007.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Pabbi horfði á Opna breska í fyrsta skipti og fór síðan niðrí Örninn og keypti fyrir mig 7-járn. Síðan þá hef ég verið límdur við völlinn.

Hvað starfar þú? / Ertu í námi, ef svo er í hvaða námi?   Ég er nemi í Grunnskóla Hveragerðis (GH).

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Skógarvelli – það er tilbreyting frá rokinu, maður þarf að hugsa betur um lendingarsvæði boltans og vera með meira leikskipulag.

Fannar Ingi við 18. holuna á DYE vellinum í PGA Golf Club. Mynd: Í einkaeigu.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur og af hverju?  Mér líkar betur við höggleik,  bara vegna þess að þá er maður alltaf að keppast við að halda sem bestu skori.

Hver er/eru uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Vestmannaeyjar og Kiðjabergið.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur erlendis? Pinehurst 4.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?      Það er Wigwam í Arizona  og svo golfvöllurinn á Madeira, en golfvöllinn á Madeira labbaði ég þegar ég var 10 ára. Ástæðan fyrir að hann er sérstæður er landslagið, sem er svo fallegt.

Hvað ertu með í forgjöf?  7,6.

Fannar Ingi púttar á æfingaflötinni á Pinehurst á US Kids World Championship 2011. Mynd: Í einkaeigu

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   71 á Hamarsvelli í Borgarnesi.

Hvert er lengsta drævið þitt?  240 metrar á sléttu svæði.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Að vinna 1. flokk GHG í meistaramótinu 2011.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei.

Hvaða nesti ertu með í pokanum? Túnfiskssamloku og Poweraid.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Já, fótbolta.

Fannar Ingi við hina frægu 100 ára styttu á Pinehurst í júlí 2011. Mynd: Í einkaeigu.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn er nautasteik og soðin ýsa með rauðum íslenskum kartöflum; uppáhaldsdrykkirnir eru mjók og kók; Uppáhaldstónlistin mín er bara allskonar; uppáhaldskvikmyndin er Taken; og uppáhaldsbókin er  „Tár, bros og takkaskór“ eftir Þorgrím Þráinsson.

Hverjir eru uppáhaldskylfingarnir nefndur 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   KK: Ryo Ishikawa  KVK:  Natalie Gulbis.

Hvað er í pokanum og hver er uppáhaldskylfan þín?  Það sem er í pokanum hjá mér er TaylorMade R-9 TP dræver, Titleist 909 brautar 3-tré, hybrid 909, Taylormade TP 4-PW, Wedgar Titleist TVD 58°, 54° og Scotty Cameron pútter. Uppáhaldskylfan mín er 58° sandwedge-ið.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Já, hjá Inga Rúnari,  Einari Lyng og svo var ég í skóla hjá Steina Hallgríms.

Ertu hjátrúarfullur?   Nei.

Fannar Ingi stillir sér upp við styttu af Payne Stewart í Pinehurst 2011. Mynd: Í einkaeigu.

Hvert er meginmarkmiðið í golfinu og í lífinu? Í golfinu er markmiðið að verða atvinnumaður og vinna Masters og í lífinu er það að vera heiðarlegur við annað fólk.

Hvað finnst þér best við golfið?  Útiveran og maður er alltaf að keppast við að verða betri og betri.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andlegur (í keppnum)?   70%.

Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?    Maður ætti alltaf að taka víti þegar þarf á að halda.

Frá verðlaunaafhendingu á US Kids World Championship 2011. Mynd: Í einkaeigu.

Spurning frá síðasta kylfing sem var í viðtali hjá Golf 1 (Inga Rúnari):  Hefir þú prófað að pútta með Scotty Cameron pútter?   Svar Fannars Inga: Já.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við? Fannar Ingi: Já, Hvaða golfkúlu notar þú?

Skorkort 12 ára stráka á US Kids World Championship 2011 í Pinehurst.         Mynd: Í einkaeigu.