Ragnheiður Jónsdóttir | september. 18. 2013 | 22:00

Sigurpáll hættir með afreksstarfið hjá Keili – Viðtal

Þær fréttir bárust nú í vikunni að Sigurpáll Geir Sveinsson og Jóhann Hjaltason, golfkennarar Golfklúbbsins Keilis væru að hætta eftir áralöng störf hjá klúbbnum.  Sigurpáll hefir þannig starfað í 4 ár hjá Keili og haft yfirumsjón með öllu afreksstarfi barna og unglinga.  Og árangurinn í starfstíð hans hjá Keili hefir ekki látið á sér standa. Keiliskrakkarnir hans Sigurpáls hafa hrúgað inn Íslandsmeistaratitlum og verðlaunum á Íslandsbankamótaröðunum, öðrum unglingamótum og staðið sig vel á mótaröð þeirra bestu, Eimskipsmótaröðinni.   Starf Sigurpáls hjá Keili er þakkarvert og í raun ómetanlegt og margir sem harma brotthvarf hans.

Sigurpáll Geir Sveinsson, GK. Mynd: Golf 1

Sigurpáll Geir Sveinsson, að fylgjast með Keiliskrökkunum á Skaganum 2011.. Mynd: Golf 1

Golf 1 tók eftirfarandi viðtal við Sigurpál um starfslokin hjá Keili:

Hvernig var viðskilnaðurinn við Keili, kom eitthvað upp á – voru launin of lág?

Sigurpáll Geir: Nei, Viðskilnaðurinn var allur  í góðu.  En allt afreksstarf barna og unglinga fer að mestu fram eftir kl. 16:00 á daginn og um helgar. Ég ætla bara að gera smá hlé, þetta er orðið alltof mikið álag og mikil þreyta farin að gera vart við sig.  Ef maður á að endast í þessu þarf allt að ganga eins og smurð vél og ég þarf að hvíla mig.

Gætir þú hugsað þér að koma aftur til Keilis?

Sigurpáll Geir: Ég útiloka ekkert í því efni.

Þegar þú lítur yfir þessi 4 ár sem þú ert búinn að kenna hjá Keili, hverju ertu stoltastur af? 

Sigurpáll Geir: Það sem stendur upp úr er stöðugleiki frá ári til árs í titlum. Ég lagði upp úr að hafa blómlegt starf og skapa toppafreksíþróttamenn;  þeir trekkja það hefir gengið vel . Það er heiður að hafa fengið að starfa með öllum krökkunum í Keili: Axel Bóassyni, Birgi Birni, Gísla, Henning Darra,  Signýju og hinum stelpunum  og öllum hinum.

Sigurpáll Geir Sveinsson, að fylgjast með Keiliskrökkunum á Íslandsmótinu í höggleik. Mynd: Golf 1

Sigurpáll Geir Sveinsson, að fylgjast með Keiliskrökkunum á Íslandsmótinu í höggleik á Korpu, 2013. Mynd: Golf 1

Hvað heldur þú að þú komir til með að sakna mest hjá Keili? 

Sigurpáll Geir: Ég kem til með að sakna mest krakkanna sem nenna að leggja alla vinnuna á sig og vilja ná árangri; þeim sem borið hafa mestu virðingua fyrir mér og Jóa. Þegar illa gengur er ekkert auðveldara fyrir krakkana að fara heim og segja að þjálfarinn sé ömurlegur.

Hvað myndir þú vilja sjá gert í afreksstarfinu hjá Keili – er eitthvað sem betur má fara – fyrir utan að krakkarnir eigi að hætta að kvarta undan þjálfaranum 🙂 ?

Sigurpáll Geir: Það þarf að vera einstaklingur sem sinnir öllu starfinu bakvið tjöldin – Við Jói höfum verið að sinna þessu á kvöldin og nóttunni.  Það þarf 3 golfkennara hér – þetta er of mikið álag á 2 einstaklinga.

Telur þú þig geta séð fyrirfram hvort krakki eða unglingur komi til með að verða afrekskylfingur?  

Sigurpáll Geir: Já.  Það sést bara á hvað viðkomandi er fljótur að tileinka sér það sem  það maður segir og sum börn eru einfaldlega íþróttamenn, önnur ekki.  Golf er ekki fyrsta val hjá öllum. Hér áður fyrr styrkti Hafnarfjarðarbær íþróttastarf meira, þ.e.a.s. 5 íþróttagreinar bæjarins voru styrktar með endurgreiðslum, en nú eru þær aðeins tvær,  vegna niðurskurðar. Það hefir því minnkað að Keilir sé að fá þessa flottu íþróttakrakka úr t.d. úr fimleikum, fótbolta körfu og handbolta. Nú þarf að hafa miklu meira fyrir því að fá þessa krakka hingað.

Hvað þarf til, til þess að ná langt í golfíþróttinni?   Það þarf sjálfsaga, vilja, elju og vinnu.

Hvernig skilgreinir þú „góðan kylfing?”

Sigurpáll Geir: Það er íþróttamaður, sem er í góðu líkamlegu og andlegu ástandi sem er vinnusamur, en það er stóri pósturinn sem vantar í marga íslenska kylfinga. Landsliðsþjálfarinn hefir sett markið við að þeir sem vilji verða góðir verði að æfa 25 klst. á viku. Það eru örfáir sem gera það.

Sigurpáll Geir Sveinsson, GK, á ráðstefnu SÍGÍ, 24. febrúar 2012. Mynd: Golf 1.

Sigurpáll Geir Sveinsson, GK, heldur ræðu á ráðstefnu SÍGÍ, 24. febrúar 2012. Mynd: Golf 1.

Finnst þér munur á því hvernig búið er að kylfingum á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni?  

Sigurpáll Geir: Það er rosalegur aðstöðumunur. Miðað við aðstöðuna sem er í boði þá er verið að hlúa mjög vel að kylfingum úti á landi. T.a.m. eru Brian og Heiðar að gera góða hluti fyrir Norðan.   Austurland er því miður ekki á kortinu. En Norðurland að gera góða hluti.  Að Dalvík skuli vera með svipaða inniaðstöðu og 1500 manna klúbbar hér á höfuðborgasvæðinu er einstakt.

Hvað finnst þér að betur mætti gera hjá klúbbum úti á landi – sem vilja gegna uppeldishlutverki og þjálfa upp afrekskylfinga meðal barna og unglinga?  

Sigurpáll Geir: Ef þú vilt afreksstarf kostar það peninga – þú þarft að hafa góða þjálfara og borga þeim vel því þetta er leiðinlegur vinnutími.

Nú, hefir þú sagt að þú ætlir sjálfur að fara að keppa aftur – hver eru markmiðin í golfinu hjá þér persónulega?      

Sigurpáll Geir: Að verða samkeppnishæfur á Eimskipsmótaröðinni 2014.

Nú ertu formaður félags PGA golfkennara – ætlar þú að halda áfram að gegna þeirri stöðu?  

Sigurpáll Geir: Það er óákveðið ég á eftir að leggja höfuðið í bleyti með það. Það er aðalfundur í janúar – ég er að svo stöddu ekki búinn að gera upp huga minn.

Muntu áfram sinna einkakennslu?   Já.

Muntu sinna fararstjórn í golfferðum?  Það kemur til greina.

Hvað tekur við hjá þér?  

Sigurpáll Geir: Það er óljóst – Ég ætla að byrja á 6 vikna sumarfríi. Það er ólíklegt að ég haldi áfram í golfkennslu fyrir golfklúbb næstu 12 mánuði, en ef það kemur einhvers staðar tilboð, sem ekki er hægt að hafna, þá skoða ég það. En hugurinn stendur líka til að gera eitthvað allt annað. Ég ætla að hugsa um eigið golf, það er enn hellings golf í mér og þessi mikli  áhugi spratt upp aðeins nokkrum dögum eftir að ég sagði upp hér hjá Keili.