Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 1. 2011 | 11:30

Veit nokkur hver Bill Powell og hvað Clearview eru í golfinu?

Barack Obama og Joe Biden að pútta á flötinni fyrir framan Hvíta Húsið.

Við lifum á tímum þar sem okkur finnst eðlilegt að sjá þeldökka kylfinga spila meðal þeirra bestu. Einn allra besti kylfingur sögunnar, Tiger Woods, er blökkumaður og við vitum öll að eitt aðaláhugamál Barack Obama, fyrsta Bandaríkjaforsetans sem er blökkumaður, er golf. Þó er haft vakandi auga með honum að hann spili nú ekki of mikið golf, heldur sinni mikilvægari verkefnum í þágu þjóðar sinnar! … en það er ekki nokkuð sem var bundið við litarhátt hans… Kennedy fór t.d. í felur með golfleik sinn vegna þess að 1. hann vildi ekki að litið yrði svo á að hann sinnti ekki mikilvægum verkefnum þjóðar sinnnar 2. vegna þess að golfið er ríkra manna sport og hefði fælt frá fátækari kjósendur.

Tiger Woods og Joseph Bramlett

Golf var og er íþrótt aðalsins, elítunnar í hverju þjóðfélagi; forréttindahópa, sem hafa nægan tíma -til að spila leik, sem tekur a.m.k. 4 ef ekki upp undir 6 tíma að spila á miklum annatímum stórra valla, Golf hefir einnig allt tíð þótt íþrótt hinna eldri – þ.e. ef fólk er á annað borð ekki efnað – þá er það þó ríkt af tíma eftir að komið er á eftirlaunaaldurinn. (Innskot: Reyndar er „stigma-ið” að golf sé íþrótt hinna eldri áhugavert, réttara væri að segja að það væri íþrótt þeirra sem hafa nægan tíma á höndum, en þar undir geta t.d. líka komið börn og unglingar og nú á síðari tímum atvinnulausir, en það er nú efni í aðra grein).

En golf hefir ekki alla tíð bara verið íþrótt hinna heldri og eldri heldur líka sport hvíta mannsins (og e.t.v. hin allra síðustu ár gula mannsins, miðað við uppgang íþróttarinnar í Asíu og þá sérstaklega í Suður-Kóreu og Thaílandi). Steríótýpan af golfara er hvítur, ríkur, gamall, karlmaður.

Hvað með blökkumenn í golfi ? Þeir eru enn í miklum minnihluta í íþróttinni og forvitnilegt hvort íslenskir kylfingar gætu með góðu móti talið upp 10 þekkta, þeldökka kylfinga – Fyrir utan Tiger og Obama yrði líklega fátt um svör.

Charlie Sifford og Tiger Woods.

Það þótti sögulegt þegar Joseph Bramlett komst í gegnum Q-school í fyrra, 2010, þar sem hann er blökkumaður og vel menntaður (var í Stanford líkt og Tiger) og er í hópi örfárra slíkra, sem spilað hafa á bandaríska PGA. Aðrir eru m.a.: Charlie Sifford (Charlie, fæddist í Charlotte, Norður-Karólínu 2. júní 1922 – gerðist atvinnukylfingur 1948 og reyndi fyrst að komast á PGA Tour 1952, en hann fékk ekki fullan þátttökurétt fyrr en 1961, mestmegnis vegna fordóma. Hann var fyrsti blökkumaðurinn til að spila á PGA Tour og verður tekinn í frægðarhöll Suður-Kaliforníu nú í vikunni. Áður hafði hann þó (árið 2004) hlotið inngöngu í frægðarhöll kylfinga fyrstur blökkumanna. Árið 2006 hlaut Charlie líka heiðursdoktorsnafnbót í lögum frá St. Andrews háskóla, m.a. vegna framlags hans til mannréttindabaráttunnar);  James Lacey (Jim) DentLee Elder (sá fyrsti til þess að taka þátt í Masters – hann fékk hótunarbréf; en hann lét þau sem vind um eyru þjóta) Calvin Peete og Jim Thorpe, en sá síðastnefndi er því miður líkt og Tiger þekktur að endemum, Tiger fyrir framhjáhöld, Jim fyrir skattundandrátt. Því miður, því það er svo mikilvægt að blökkumenn eigi sterkar og góðar fyrirmyndir í golfinu.

Í Suður-Afríku eru nokkrir blökkumenn, sem spila golf og gott dæmi um það er James Bongoni Kamte, sem einmitt var að var að vinna 4 sigur sinn nú á Sólskinstúrnum nú um helgina, þ.e. á BMG Classic.  Það er af sem áður var en Vincent Tschabalala (f. 16. mars 1943) var t.a.m. stimplaður „litaður“ undir kynþáttaaðskilnaðarstefnu Apartheid í Suður-Afríku og fékk því ekki að spila í Suður-Afríku, á sínum bestu árum.

Blökkumaðurinn Mpho Kelosiwang er framkvæmdastjóri golfsambands Botswana og hefir unnið fjölmörg mót í heimalandi sínu.

En vendum okkar kvæði í kross. Hvað með blökkukonur í golfi?

Cheyenne Woods, liðsfélagi Ólafíu Þórunnar í Wake Forest

Liðsfélagi Ólafíu Þórunnar í Wake Forest, Cheyenne Woods er meðal þekktari þeldökkra kvenkylfinga í bandaríska háskólagolfinu og Shasta Averyhardt er farin að spila á LPGA.    Þær gegna gríðarmikilvægu hlutverki fyrirmynda, sem a.m.k. Cheynne rís fyllilega undir; falleg og frábær. Sögur um yndisleik og góðmennsku hennar heyrast allt til Íslands. Þær blökkukonur, sem spilað hafa á LPGA eru m.a.:

Tennisstjarnan Althea Gibson var fyrsta svarta konan til að spila á LPGA. Hún komst á LPGA 1963 og spilaði í 171 móti til ársins 1971.

Renee Powell er þeldökk og var á LPGA á árunum 1967-1980. Hún fékk m.a. heiðursdoktorsgráðu frá St. Andrews í lögum árið 2008.

LPGA kylfingurinn Renee Powell ásamt föður sínum Bill, sem var fyrsti blökkumaðurinn, sem átti og byggði golfvöll fyrir blökkumenn

LaRee Pearl Sugg spilaði á LPGA á árunum 1995, 1996, 2000 og 2001.

Andia Winslow komst ekki í gegnum niðurskurð 2006. (NFL frægðarhallar-fótboltakappinn, Kellen Winslow, Sr. er frændi hennar).

Paula Pearson-Tucker og Darlene Stowers spiluðu á Futures mótaröðinni.

Ginger Howard

Þeldökkt 17 ára nýstirni, Ginger Howard, virðist líklegt til þess að verða ein örfárra í sínum litarhætti til þess að spila á LPGA á næstunni.  Enn yngra golfsmástirni aðeins 11 ára gamalt, Naomi Mitchell á framtíðina fyrir sér; hún vann m.a. U.S. Kids Golf World Championships aðeins 6 ára gömul og var í 2. sæti á sama móti árinu áður aðeins 5 ára.  Árið 2008 var Naomi valin í Tiger Woods Foundation Junior Golf liðið.

Naomi Mitchell – undrabarn í golfi.

Af hverju eru svona fáir blökkumenn kylfingar? Ástæðuna er aðallega að finna í mismununinni og aðskilnaðarstefnunni sem viðgekkst og viðgengst enn í dag, fátækt og fáum tækifærum. Ef hugsað er út í það: „Er ekki undarlegt að Tiger skuli hylltur sigurvegari á Augusta Masters, klúbbi sem meinar þeldökkum félagsaðild? Þar sem menn eins og Charlie Sifford hafa aldrei og munu aldrei stíga fæti á?

En í þessari  löngu grein er hér loks komið að svarinu við spurningunni í fyrirsögninni: Bill Powell er fyrsti blökkumaðurinn, sem byggði, átti og rak golfvöllinn Clearview í East Canton Ohio.  Þegar Bill kom aftur frá Evrópu, 1946, eftir að hafa barist í 2. heimsstyrjöldinni fyrir land og þjóð mætti hann ekkert nema fordómum á golfvöllum heimaríkis síns, sem bönnuðu svörtum að spila á golfvöllum hvítra. Bill Powell byggði því sinn eiginn golfvöll, Clearview fyrir blökkumenn. Þetta er eini golfvöllur í heiminum byggður af blökkumanni fyrir blökkumenn og fyrir 10 árum var golfvöllurinn lýstur þjóðarsögustaður (ens. National Historic Site) af innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.  Sjá má upplýsingar og myndir af Clearview með því að smella HÉR: 

Bill Powell fæddist 22. nóvember 1916 í Greenville Alabama og er afkomandi þræla þar. Hann dó í Canton, Ohio fyrir 2 árum síðan úr hjartaslagi.  Hann var pabbi LPGA kylfingsins Renee Powell og kenndi henni ungri að spila golf.