Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 14. 2020 | 12:00

Úrtökumót f. LET 2020: Berglind og Guðrún Brá meðal keppenda

Berglind Björnsdóttir, GR og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK eru meðal 188 keppenda frá 37 löndum sem keppa á úrtökumótum LET, næstu tvær vikur.

Það sem keppt er um er sæti á bestu kvenmótaröð Evrópu, LET (skammstöfun á Ladies European Tour) keppnisárið 2020.

Fyrst munu 131 keppandi frá 33 löndum keppa í úrtökumóti með höggleiks keppnisfyrirkomulagi dagana 15.-18. janúar.

Þeirra á meðal er Berglind, en Guðrúnu Brá gekk svo vel á mótunum, sem hún tók þátt í á sl. ári að hún kemst beint á lokaúrtökumótið sem fram fer 22.-26. janúar.

Þær sem eiga öruggt sæti á lokaúrtökumótinu eru 57 talsins.

Fastar reglur gilda um hversu margar ná inn á LET mótaröðina.

Eftir lokahringinn munu 5 keppendur komast í flokk 5c og öðlast fullan þátttökurétt á LET. Þær sem eru í 6-20. sæti eru í flokki 8a. Þær sem hafa náð niðurskurði og eru í 21.- 60. sæti eru rankaðar eftir skori og komast í flokk 9b.  Þær sem ekki ná niðurskurði komast í flokk 12a.  Því hærri sem flokkurinn er, því minni þátttökurétt hafa kvenkylfingarnir á LET og 12a fær aðeins takmarkaðan þátttökurétt á mótum LET Access. Efstu 20 fá hins vegar spilarétt á LET mismikinn þó.

Meðal þeirra 57 sem eru öruggar inn á lokaúrtökumótið eru 39 keppendur sem ekki náðu að vera meðal topp-80 á stigalista LET 2019 og 15 efstu kylfingar af LET Access stigalistanum og tveir kylfingar sem eru meðal 25 efstu á heimslista áhugamanna.

Yngsti keppandinn í 131 kylfinga hópnum á 1. stigs úrtökumótinu er hin 16 ára bandaríska Ashley Shim og enn sem komið er er yngsti keppandi á lokaúrtökumótinu hin 16 ára Pia Babnik frá Slóveníu.

Þær sem komast á lokaúrtökumótið, t.d. þær Guðrún Brá og Pia Babnik, munu m.a. keppa við reynslubolta á borð við fyrrum Solheim kylfinginn Becky Brewerton og kylfinga sem hafa sigrað á LET, kylfinga á borð við Isabelle Boineau, Anne-Lise Caudal og Valentine Derrey og er lokaúrtökumótið þegar að óloknu 1. stigs úrtökumótinu, afar sterkt.

Golf 1 óskar Berglindi og Guðrúnu Brá góðs gengis á úrtökumótunum og fylgist að sjálfsögðu með líkt og á undanförnum árum.

Jafnframt mun Golf 1 vera með kynningu á þeim stúlkum sem hljóta keppnisrétt á LET, að úrtökumótunum loknum.