Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 18. 2013 | 10:00

Golfreglur: Skil á skorkorti

Nú þegar golftímabilið fer að hefjast og kylfingar landsins streyma á golfvellina, sem fara að opna hver á fætur öðrum í næsta mánuði þá er e.t.v. rétt að rifja upp golfreglurnar.

Það verður gert hér á Golf1 í raunhæfum dæmum, sem kylfingar geta glímt við en svörin eru jafnframt gefin upp við hverri spurningu.

Raunhæft dæmi: 

Í höggleikskeppni, gefur mótsnefnd út skorkort þar sem á er rituð forgjöf keppanda að viðbættu nafni hans og dagsetningu. Mótsnefndin skráir ranglega forgjöf keppanda á skorkortið sem 7 í stað 6 og það hefir áhrif á skor hans, þannig að skor hans er betra en ef skor hans væri reiknað skv. lægri forgjöf hans. Villan uppgötvast ekki fyrr en búið er að skila inn skorkortinu, en áður en mótinu lýkur. Hvernig dæmist?

A. Keppandinn fær frávísun fyrir að skrá rangt skor. (Regla 6-6d)

B. Keppandinn fær frávísun fyrir brot á reglu 6-2b: „Í sérhverri umferð höggleiks með forgjöf verður keppandinn að ganga úr skugga um að forgjöf hans sé skráð á skorkort hans áður en því er skilað til nefndarinnar. Sé engin forgjöf skráð á kortið áður en því er skilað (regla 6-6b) eða ef skráð forgjöf er hærri en hann á rétt á og það hefir áhrif á gefinn höggafjölda sætir hann frávísun frá forgjafarkeppninni, að öðrum kosti gildir skorið.“

C. Keppandinn fær 2 högg í víti, því það er almennt víti fyrir brot í höggleik (skv. reglu 3.5) og rangt skor á skorkorti er brot.

D. Rangt skor á skorkorti keppanda er vítalaust þar sem mótsnefnd skráði forgjöf keppenda ranglega.

Til að sjá rétt svar skrollið niður

|

|

|

|

|

|

|

Rétt svar:  B) Keppandinn á að hljóta frávísun á grundvelli reglu 6-2b. Það er á ábyrgð keppanda að tryggja að rétt forgjöf sé skráð á skorkort hans áður en því er skilað til mótsnefndar. Keppandinn á að fara yfir skorkort sitt áður en því er skilað (Regla 6-6b). Viðurlög við brotum á framangreindum reglum er í báðum tilvikum, frávísun.

Ekki er um skráningu keppanda á röngu skori að ræða (regla 6-6d). Hann skráir skor sitt rétt en röðun hans á skortöflu verður röng í tölvukerfi mótsnefndar vegna þess að keppanda láðist að sjá að forgjöf hans var ranglega skráð og staða hans í mótinu reiknast síðan rangt út miðað við hina röngu, hærri forgjöf. Á þessu ber keppandi ábyrgð að viðurlögðu frávísunarvíti.

Kylfingar í höggleikskeppnum verða því ávallt að gæta þess að forgjöf þeirra sé rétt skráð á skorkort þeirra og ganga frá leiðréttingu við mótsnefnd áður en þeir skila skorkortinu, sé forgjöf þeirra ranglega skráð á forskráð skorkort!!!! Skili þeir inn skorkorti með hærri forgjöf en sú sem þeir hafa og rétt er,  varðar það frávísun, skv. reglu 6-2b.