Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari. Mynd Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 20. 2012 | 17:15

Úlfar Jónsson: „Við stefnum á topp 3″

Golf 1 tók örstutt viðtal við landsliðsþjálfarann, Úlfar Jónsson, sem sjálfur var staddur á teig, að fara að spila golf í góðviðrinu hér sunnanlands.

Golf 1: Hvernig finnst þér strákarnir vera að standa sig í Búlgaríu?

Úlfar: Mjög vel – Skorin voru góð í dag – Ragnar Már var á 67 – svo vorum við með 70, 71,72 sem eru mjög flott skor. Verst að við urðum að skila inn 79. En við erum aðeins 6 höggum frá 3. sætinu og 7 höggum frá 1.-2. sætinu, þannig að ef allir spila skv. getu sinni þá er þetta fljótt að koma. Þetta fer að detta inn á morgun og á næstu dögum.

Golf 1: Ertu með einhver heilræði til strákanna fyrir leikinn á morgun?

Úlfar: Þeir verða að koma vel undirbúnir til leiks. Og vera með jákvætt hugarfar og gott skipulag. Það er hægt að finna svo litlar upplýsingar um keppnisvöllinn úti í Búlgaríu, en af því sem ég hef séð þá er þetta ekki langur völlur. Það verður líklega að spila staðsetningargolf og vera þolinmóður þá kemur þetta.

Golf 1: Hverju spáir þú um niðurstöðuna – náum við 3. sætinu?

Úlfar: Þetta eru allt toppkylfingar í liðinu, sem hafa verið að standa sig vel í sumar. Þeir hafa allir getuna til þess að spila undir pari. En þeir ráða litlu um lokaniðurstöðuna. Þeir verða bara að fara þarna inn og spila sitt allra besta golf og þá sjáum við hvert það skilar okkur. Við stefnum á topp 3.