Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 30. 2021 | 08:00

Tiger vonast til að spila aftur á PGA Tour

Tiger Woods hefur gefið út að hann vonist til að spila á PGA TOUR aftur, þó takmarkað.

Woods ræddi við Golf Digest í myndbandsviðtali sem birt var í gær mánudaginn, 29. nóvember 2021 og talaði þar m.a. um framtíð sína í golfi,  í fyrsta skipti frá því að hann meiddist mikið á fæti í bílslysi í febrúar síðastliðnum.

Sjá má viðtal Golf Digest við Tiger í heild sinni með því að SMELLA HÉR: 

Myndbandið kom út degi fyrir fyrsta fyrirhugaða stóra blaðamannafund hans eftir slysið, en hann verður haldinn klukkan 9:00 að staðartíma  á Albany golfvellinum á Bahamaeyjum, þar sem Woods er gestgjafi Hero World Challenge.

Slysið í Los Angeles þann 23. febrúar varð til þess að Woods hlaut rifið opið beinbrot á sköflungi og dálki (ens.: fibula) í hægri fæti og skaðaðist á ökkla, sem skyldi eftir mikla óvissu um getu hans til golfleiks. Hinn 82-faldi sigurvegari á PGA TOUR sagði að aflimun hefði verið möguleiki og til skoðunar á fyrstu dögum eftir slysið.

Ég held að það sé raunhæft að ég spili á PGA TOUR einn daginn – aldrei aftur að fullu – (ég verð að) velja og hafna (mót), rétt eins og hr. (Ben) Hogan gerði. Það verður bara að velja nokkra viðburði á ári og vinna  í kringum það,“ sagði Woods m.a. við Golf Digest.

Þú æfir í kringum það og þú undirbýr þig fyrir það. Ég held að það sé hvernig ég muni spila héðan í frá. Þetta er óheppilegur veruleiki, en þetta er minn veruleiki. Og ég skil það og tek undir það. … Það var tímapunktur þegar ég hefði ekki sagt að það væri 50/50, en það var fjandi nálægt því (að ég hætti spili) ef ég hefði þurft að yfirgefa spítalann aðeins með annan fótinn.“

Woods hefur áður komið til baka eftir meiðsli. Hann fótbrotnaði og reif í hásin árið 2008 og hefur farið í margar bakaðgerðir.  Tiger verður 46 ára í desember og hefur breytt áherslum í lífi sínu; það sem skiptir hann mestu eru börn hans og heilsa.

Ég þarf ekki að keppa og spila á móti bestu leikmönnum heims til að eiga frábært líf,“ sagði Woods. „Eftir bakaðgerðirnar varð ég að klífa Everest fjallið einu sinni enn. Ég varð að gera það og ég gerði það. Í þetta skiptið held ég að ég muni ekki hafa líkamlega getu til að klífa Everest og það er allt í lagi.

Ég get enn tekið þátt í golfleiknum. Ég get, ef fóturinn á mér verður í lagi, get ég samt smellt mér í mót hér eða þar. En hvað varðar að klífa fjallið aftur og komast alla leið á toppinn, þá held ég að það sé ekki raunhæfar væntingar til mín.