Ragnheiður Jónsdóttir | október. 22. 2012 | 21:30

Tiger hlakkar til að mæta Rory í golfeinvígum næsta áratuginn

Tiger Woods sagði í dag að hann hlakkaði til keppni við  Rory McIlroy næsta áratuginn, en þessir tveir efstu menn á heimslistanum munu m.a. mætast í Kína í næstu viku.

Margir líta á hinn 23 ára  McIlroy, sem unnið hefir tvo risamótstitla sem arftaka hins 36 ára Tiger, sem á 14 risamótssigra í beltinu.

Síðasti risamótssigur Tiger var á Opna bandaríska 2008 og kom stuttu áður en ferill hans lenti í niðursveiflu í miðjum skandal um einkalíf hans, þar sem hann féll m.a. af topp-50 á heimslistanum.

En 3 sigrar á  PGA Tour hafa komið honum í 2. sæti heimslistans á þessu ári. Nú segist Tiger tilbúinn að skora efsta mann heimslistans McIlroy á hólm og miðar að sigri þegar þeir mætast 29. október n.k.

„Það verður gaman að mæta Rory,“ sagði Tiger um 18 holu, holukeppni þeirra, sem fram fer í Jinsha Lake Golf Club í Zhengzhou.

„Við förum þarna og spilum vonandi vel og skemmtum áhorfendum,“ bætti hann við, og spáði því að það yrðu fleiri slíkar keppnir milli þeirra tveggja á næstu árum.

„Við höfum öll séð hversu hæfileikaríkur Rory er. Það verður gaman að kljást við hann næsta áratuginn eða svo og vonandi lengur,“ sagði Tiger ennfremur.

Rory náði fyrsta sætinu á heimslistanum af Luke Donald eftir sigur sinn á US PGA Championship  í ágúst og bætti þeim risamótstitli við þann sem hann átti fyrir, þ.e. fyrsta sigur sinn á Opna bandaríska 2011.

Búist er við að einvígið við Jinsha vatn dragi að sér mikinn fjölda áh0rfenda og að  golfáhangendur í Kína fái sjaldgæft tækifæri til að sjá efstu tvo á heimslistanum keppa við hvorn annan. „Mér líkar við einvígi þannig og það er frábært að heyja eitt í Kína,“ sagði Tiger.

„Ég hef spilað í Kína mörgum sinnum s.l. 10 ár en þetta er í fyrsta sinn sem ég spila við Jinsha vatn og í Zhengzhou, þannig að ég hlakka til þeirrar reynslu. Ég hef heyrt að golfáhangendur séu mjög spenntir.“

Heimild: http://www.sport360.com