Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 8. 2014 | 08:00

„þeir verði teknir handjárnaðir af golfvellinum“

Nú er sá tími sem flestir kylfingar sem aðrir landsmenn eru að huga að skattframtölum sínum og því kannski ekkert svo slæmt að það sé snjór úti svo ekki sé freistast til að fara í golf.

En það er víðar en á Íslandi sem menn sitja sveittir yfir skattframtölunum; í mörgum ríkjum Þýskalands eru menn að reikna út skatt sinn.

Fjármálaráðherra Schleswig-Holstein ríkis, Moniku Heinold,(úr flokki Græningja) tókst að móðga þýska kylfinga vegna ummæla sem eftir henni voru höfð i þýska tímaritinu Spiegel (8/2014).

Þar segir Heinold í grein, sem ber titilinn „Það verður að refsa“ (þýs: Strafe muå sein): „Skattsvikarar kæra sjálfa sig aðeins ef þeir eru hræddir um að þeir verði teknir handjárnaðir af golfvellinum, því verða sambandríkið og einstök ríki að tala sama tungumál og á golfvöllum.“

Forseti þýska golfsambandsins,Hans Joachim Nothelfer en innan vébanda þess eru 700.000 kylfingar, var skiljanlega lítt hrifinn af ummælum fjármálaráðherrans og sneri sér skriflega til hennar þar sem hann sagði m.a. að hún hefði náð alveg nýjum hæðum í meiðyrðum og því að gera lítið úr golfíþróttinni, því skilja mætti ummæli hennar svo að þýskir skattsvikarar finnist einkum á golfvöllum.  Einnig er í ummælunum sá undirtónn að golfíþróttin sé aðeins fyrir þá sem hafa eitthvað að svíkja undan skatti þ.e. þá eru ríkir eða a.m.k. velmegandi; nokkuð sem skaðar nýju ímyndina sem verið er svo vandlega að reyna að innleiða, þ.e. að golf sé fyrir alla.

Heimold hefir þegar svarað þýska golfsambands forsetanum þ.e. svo að hún skilji vel að einn eða annar kylfingurinn hafi verið ósáttur við ummæli hennar og hafi einhver móðgast þyki sér það leitt.