Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 30. 2012 | 16:00

Eimskipsmótaröðin: Systurnar Heiða og Karen Guðnadætur

Það er mikið um að systkini séu að keppa saman í golfmótum og mót Eimskipsmótaraðarinnar eru þar engin undantekning. Nú er nýafstaðið Íslandsmótið í höggleik. Meðal keppenda í því voru systurnar Heiða og Karen Guðnadætur.

Eins og Golf 1 greindi frá í gær voru þær sem komust í gegnum niðurskurð í kvennaflokki aðeins 18 af 27 sem hófu keppni og þessir 18 kvenkeppendur, sem komust í gegnum niðurskurð dreifast á 7 klúbba. Heiða og Karen voru einu fulltrúar klúbba sinna GKJ og GS í kvennaflokki, sem komust í gegnum niðurskurð, sem er glæsilegt hjá þeim systrum!

En ekki aðeins glæsilegt, því ef þær hefðu ekki keppt hefðu næstu konur inn í gegnum niðurskurð verið þær Íris Katla Guðmundsdóttir og Högna Kristbjörg Knútsdóttir sem eru sem kunnugt er úr GR og GK og þá hefðu kvenkeppendur aðeins komið úr 5 klúbbum á landinu eða aðeins  7,5% klúbba á landinu átt kvenfulltrúa í mótinu um helgina. Nógu fáa fulltrúa eiga konur nú samt, koma aðeins úr 7 af 65 klúbbum landsins, sem er aðeins þátttaka kvenna úr tæp 11% klúbba á landinu.

Karen varð í 9.-11. sæti á samtals 25 yfir pari, 305 höggum (78 79 72 76) á Íslandsmótinu í höggleik og Heiða í 12. sæti aðeins 1 höggi á eftir þ.e. 26 yfir pari, 306 höggum (79 76 77 74).

Báðar eru þær systurnar klúbbmeistarar í sínum klúbbum í ár, 2012, Karen í GS og Heiða í GKJ!  Duglegar systur og frábærir keppendur!!!