Á Montagu velli Fancourt voru spilaðir 2 hringir.
Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 15. 2012 | 10:00

Sólskinstúrinn: Dimension Data Pro-Am hefst á morgun

Fyrstu 3 mót Sólskinstúrsins á árinu eru að baki, en fyrstu tvö Africa Open og Joburg Open eru jafnframt hlutar af Evrópumótaröðinni.  Svo sem mönnum er í fersku minni var það sigurvegari Opna breska, Louis Oosthuizen sem sigraði á Africa Open 2012, átti 2 högg á landa sinn Tjaart Van der Walt.

Svo var það Suður-Afríkumaðurinn Branden Grace sem vann Joburg Open í ár, átti 1 högg á Skotann Jamie Elson og vann síðan 2. mót sitt á Evrópumótaröðinni vikunni á eftir, Volvo Golf Champions, sem er mót sigurvegarana á Evrópumótaröðinni. Glæsilegur árangur það!

Seinni part janúar fór síðan suður-afríska Q-school fram og á morgun hefst annað af 2 mótum, sem fram fara á Sólskinstúrnum í febrúar: The Dimension Data Pro-Am.

Spilað er á einum flottasta golfvelli Suður-Afríku, Fancourt í George og er það 2. árið í röð sem mótið er haldið þar. Reyndar eru 3 golfvellir á Fancourt the Links, Montagu og Outeniqua og mun verða spilað á þeim öllum. (Svipað og á AT&T National Pro-Am, þar sem spilað er á Spy Hills, Monterey og Pebble Beach).

Dimension Data Pro-Am hefir verið haldið allt frá árinu 1996 (í 16 ár) og voru fyrstu 2 mótin hluti af Evrópumótaröðinni, en eru það ekki lengur.  Þetta er eitt virtasta mótið á dagskrá Sólskinstúrsins og hefir laðað að sér kylfinga í fremstu röð s.s. núverandi nr. 2 á heimslistanum Lee Westwood, fyrrum nr. 1 á heimslistanum Nick Price og risamótasigurvegarana suður-afrísku Trevor ImmelmanRetief Goosen og Louis Oosthuizen.

Sá sem á titil að verja er  Hennie Otto. Hann átti frábæran lokahring í fyrra upp á 68 högg og sigraði James Kingston, með 4 höggum.

Árinu þar áður sigraði Darren Fichardt en hann hafði áður sigrað mótið árið 2004. Hann hafði betur gegn sjálfum Louis Oosthuizen, sigraði með 1 höggi eftir að hafa fengið fugla á síðustu 2 holurnar.

Hér má sjá lista yfir sigurvegara Dimension Data Pro-Am allt frá upphafi:

Ár Sigurvegarar Skor
2011 Hennie Otto 273 (-16)
2010 Darren Fichardt 273 (-16)
2009 Deane Pappas 268 (-20)
2008 James Kamte 277 (-11)
2007 Louis Oosthuizen 277 (-11)
2006 Alan McLean 285 (-3)
2005 Simon Wakefield 279 (-9)
2004 Darren Fichardt 278 (-10)
2003 Trevor Immelman 271 (-17)
2002 Retief Goosen 268 (-20)
2001 Darren Clarke 274 (-14)
2000 Lee Westwood 274 (-14)
1999 Scott Dunlap 273 (-15)
1998 Nick Price 276 (-12)
1997 Nick Price 268 (-20)
1996 Mark McNulty 282 (-6)

Heimild: The Sunshine Tour