Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 19. 2013 | 05:45

Solheim Cup 2013: Sögulegur sigur liðs Evrópu 18-10 – í fyrsta sinn á bandarískri grundu!

Jafnvel með 6 nýliða í liði sínu sagði fyrirliði Evrópu, hin sænska Liselotte Neumann að nú væri kominn tími til að sigra sögulega, þ.e. vinna Solheim bikarinn í fyrsta sinn á bandarískri grundu.

Og liðið hennar skilaði sínu og svo miklu meira en Lotta hefði nokkru sinni þorað að vona.

Caroline Hedwall varð fyrsti leikmaðurinn í sögu Solheim Cup til þess að vinna alla 5 leiki sína (frábær 5-0 árangur sem engri hefir áður tekist) en vinningur Hedwall innsiglaði það að öruggt var að Solheim bikarinn héldist í  Evrópu! Hedwall setti aðhögg sitt á 435 yarda (398 metra) 18. holunni, þ.e. u.þ.b. 1 metra frá holu og tryggði sér fugl og 1&0 sigur yfir Michelle Wie.

„Ég titra öll,“ sagði Hedwall eftir leik sinn. „Þetta er bara frábært!“

Hetja liðs Evrópu í Solheim Cup 2013: Caroline Hedwall

Hetja liðs Evrópu í Solheim Cup 2013: Caroline Hedwall

Stuttu síðar hélt Catriona Matthew jöfnu þegar hún setti niður 1,5 metra pútt í viðureign sinni við nýliða í bandaríska liðinu Gerinu Piller og tryggði þar með hreinan sigur Evrópu (staðan komin í 14 1/2 vinning þarna fyrir Evrópu).

Og þetta átti bara eftir að batna.

Jafnvel þótt lið Evrópu hefði unnið sigur þarna þegar aðeins helmingur af leikjunum var leikinn hélt lið Evrópu áfram að hala inn vinningum fyrir Evrópu.

Þannig hélt Suzann Pettersen jöfnu gegn bandaríska nýliðanum Lizette Salas og sömuleiðis ítalska golfdrottningin Giulia Sergas en hún innbyrti 1/2 vinning í leik sínum gegn Jessicu Korda.

Lexi Thompson og Brittany Lang voru hetjur Bandaríkjamanna og þær einu sem sýndu (rauðan) lit á skortöflunni – en þær unnu leiki sína gegn þeim Caroline Masson og Azahara Muñoz.

Jodi Ewart vann leik sinn gegn Brittany Lincicome 3&2 og Beatriz Recari vann Angelu Stanford 2&1.

Viðureigninni lauk síðan á 18. flöt í Colorado klúbbnum þar sem Cristie Kerr og Karine Icher skyldu jafnar.

Síðasti hálfi vinningurinn kom liði Evrópu enn að nýju í sögubækurnar en 18-10 er stærsti sigur nokkurs liðs Evrópu í Solheim Cup frá því að keppnin hóf göngu sína 1990.

„Það var virkilega gaman að sjá þegar Caroline fékk 5. vinning sinn og skrifaði sig í sögubækurnar,“ sagði Neumann. „Að sigra hér (í Bandaríkjunum)  í fyrsta sinn kallar á enn meiri söguskriftir …. Ég er viss um að við fáum okkur einn eða tvo og dönsum síðan og syngjum í alla nótt.“

Bandaríkjamenn hafa enn forystuna yfir flestar unnar Solheim bikarkeppnir 8-5 en þetta er í fyrsta sinn sem þeir hafa tapað tveimur keppnum í röð. Bandaríkjamenn eru því bæði Solheim Cup og Ryder Cup lausir og auk þess Walker Cup og Curtis Cup lausir, en þessar 4 keppnir eru stærstu liðaviðburðir beggja vegna Atlantsála í golfinu.

Meg Mallon , fyrirliði Bandaríkjanna, hélt reisn þar til yfir lauk og gat aðeins bent á slælega frammistöðu liðs síns á 3 lokaholunum en þar hafði lið Evrópu mikla yfirburði 17-10 í unnum holum.  Bandaríska liðið náði einfaldlega ekki að klára.

„Það sem réði úrslitum er hvernig við spiluðum 16., 17. og 18. holurnar,“ sagði Mallon. „Þetta var ekki vegna æfingaleysis vegna þess að við höfum spilað völlinn nokkuð oft. Þannig að þetta kom ekki á óvart.  Þetta snerist bara um hvort liðið setti niður púttin og það var því miður lið Evrópu.“

Og við það má bæta að Mallon fékk ekki mikla hjálp frá stórstjörnunum í liði sínu. Stacy Lewis hæst rankaði leikmaður keppninnar, sem vann Opna breska kvennrisamótið 2013 náði þannig t.d. aðeins 1/2 vinningi í viðureign sinni við Önnu Nordqvist.

Anna Nordqvist náði 1/2 vinningi á móti Stacy Lewis

Anna Nordqvist náði 1/2 vinningi á móti Stacy Lewis

Paula Creamer beið stærsta ósigur bandarísks leikmanns í tvímenningnum 5&4 en hún gjörtapaði leik sínum fyrir 17 ára stelpuskottinu og nýliðanum Charley Hull.

Annar nýliði Carlota Ciganda átti frábæran leik gegn Morgan Pressel og vann hana 4&2 í tvímenningnum, en þetta er í fyrsta sinn í Solheim Cup keppninni sem Pressel tapar í tvímenningi.

Nýliðinn Carlota Ciganda vann frábæran sigur á hinni ósigruðu Morgan Pressel

Nýliðinn Carlota Ciganda vann frábæran sigur á hinni ósigruðu Morgan Pressel

Angela Stanford var vinningslaus í mótinu 0-4 og jafnvel Cristie Kerr, reynslumesti leikmaður bandaríska liðsins var bara með 1-2-1 árangur eftir keppnina.

Árangur nýliðanna í liði Evrópu var 12-5-2 og þar stal Charley Hull senunni.  Enski táningurinn spurði fyrirliða sinn eitt sinn: „Hvenær á ég að verða stressuð?“

Spurð út í þetta sagði Charley: „Ég var ekkert svo stressuð, ef satt skal segja. Vegna þess að svona lít ég alltaf á golf – Ég dey ekkert þó ég missi högg. Þetta snýst bara um að slá, finna boltann og slá aftur.“

Jamm, svo auðvelt er það! …. eða eins og góður íslenskur golfkennari, sem varð Íslandsmeistari í sveitakeppni GSÍ nú um helgina sagði svo oft: „Þetta er ekki flókið sport, golfið!“

„Tilfinningin er frábær núna,“ sagði Neumann. „Ég er svo stolt af þeim. Þær spiluðu svo flott golf þessa viku. Þær spiluðu gríðarlega gott golf.“

Úrslitin í tvímenningnum á 3. og lokadegi Solheim Cup samantekin eru eftirfarandi (sigurvegarar feitletraðir):

Anna Nordqvist g. Stacy Lewis  Allt jafnt

Charley Hull g. Paulu Creamer 5&4

Azahara Muñoz g. Brittany Lang 2&1

Carlota Ciganda g. Morgan Pressel 4&2

Caroline Hedwall g. Michelle Wie 1&0

Catriona Matthew g. Gerina Piller Allt jafnt

Suzann Pettersen g. Lizette Salas Allt jafnt

Giulia Sergas g. Jessicu Korda Allt jafnt

Caroline Masson g. Lexi Thompson 4&3

Jodi Ewart Shadoff g. Brittany Lincicome 3&2

Beatriz Recari g. Angelu Stanford 2&1

Karine Icher g. Cristie Kerr Allt jafnt