Ragnheiður Jónsdóttir | september. 8. 2021 | 10:00

Solheim Cup 2021: Reglubrot Madelene Sagström í fjórboltakeppni 1. dags

Sænski Ólympíusigurvegarinn og Solheim Cup kylfingurinn Madelene Sagström átti erfitt en eflaust líka eftirminnilegt Solheim Cup mót, þar sem hún lenti í regluþrasi, þegar á 1. degi.

En hvað væri Solheim Cup án þess að kæmi til góðrar deilu um golfreglurnar?

Það er alltaf óvinsælt þegar golfviðureignir vinnast á golfreglum en ekki frammistöðu kylfinganna sjálfra – og í því lenti Sagström.

Dómarinn dæmdi reglubrot á Sagström í laugadags fjórbolta viðureign hennar og hinnar dönsku Nönnu Koertz Madsen á 1. keppnisdegi gegn. nr. 1 í kvennagolfinu Nelly Korda og Ally Ewing.

Arnarpútt Nelly lenti á bollabarminum á 13. braut Inverness vallarins.  Sagström gékk þegar að boltanum tók hann upp og gaf Nelly fugl. Hins vegar var dæmt svo að Sägström hefði ekki beðið nógu lengi og Nelly dæmdur örn.

Þar með fór staðan í 1up fyrir Korda&Ewing og þannig vannst viðureignin líka síðar.

Í reglu 13.3 segir að  ef einhver hluti af boltanum sé yfir bollabrúninni, þá eigi kylfingur að fá „hæfilegan tíma“ (ens. reasonable time) til að koma að holunni og síðan 10 sekúndur til að sjá hvort boltinn detti.

Sagström og sú sem hún spilaði með Nanna Koerstz Madsen og fyrirliði Evrópu, Catriona Matthew, héldu því fram að ekki hefði verið sjéns að boltinn myndi detta í holu en úrskurður dómarans á vellinum var síðar staðfestur.

Skv. strangri túlkun á reglunni var ákvörðunin sennilega rétt. En smásmuguleg samt. Líklega hefði boltinn ekki dottið hefði verið beðið í 10 sekúndur. Sagström hefir sennilega bara viljað halda uppi leikhraða, sem öllum er alltaf legið á hálsi fyrir.

Korda/Ewing tvíeykið var heldur ekki að kalla til dómara heldur dæmdi hann þetta af sjálfdáðum. Það hefði e.t.v. verið í anda leiksins að leyfa þeim Sagström/Madsen að jafna á næstu holu og það gerðist líka, en Nelly/Ally voru ekkert að gefa forskotið sem þær hlutu með ákvörðun dómarans.

Þetta er sálrænt. Þegar svona reglubrot dæmist hefir það áhrif á kylfinginn, svo ekki sé talað um í svona stórri keppni, þegar mikið er í húfi.

Það var augljóst (sjá mynd í aðalmyndaglugga) að Sagström var ekki ánægð með úrskurð dómarans og í miklu uppnámi, sem hefir haft áhrif á þennan flotta kylfing og ekki hefir bætt úr skák í öllu þessu, að allt í kring voru ánægðir bandarískir áhangendur, en vegna Covid-reglna voru næstum engir evrópskir stuðningsmenn til að hvetja lið Evrópu áfram.

Sagström fékk annan sjéns strax daginn eftir að spila og var pöruð með Georgiu Hall, en tapaði aftur og nú fyrir Austin Ernst og Danielle Kang á 18. holu.

Hún var því sigurlaus fyrir tvímenninginn á mánudeginum og þakkaði Catrionu Matthew, fyrirliða, traustið að setja sig út í tvímenningsviðureign nr. 2 á eftir Önnu Nordqvist & Lexi Thompson, þar sem hún sigraði Ally Ewing 3&2 og hefndi ófaranna á óheillareglukerlingar 1. hringnum.

Í blaðaviðtali eftir að sigur liðs Evrópu var í höfn sagði Sägström:

Ég var virkilega ánægð með að Catriona ákvað að setja mig út í fyrra lagi á sunnudagsmorgninum; hún sýndi bara að hún trúir á mig og þetta sýndi líka að liðið studdi við bakið á mér. Þetta var mjög gott,“ sagði Sagström eftir sigur sinn. „Þetta hefur verið frábær vika. Liðið hefur augljóslega staðið sig frábærlega [en] ég hafði í raun ekki lagt neitt af mörkum fyrr en í dag.“ [með því að bera sigurorð af Ally Ewing].“

Árangur Sagström í Solheim Cup 2021 er því 1 sigur og 2 töp í 3 leikjum – Hún hefir örugglega óskað sér annars og betra. Líklega er Sagström  samt framtíðarkylfingur með evrópska Solheim Cup liðinu og væri gaman að fylgjast með henni eftir 2 ár á Spáni, í eðlilegum kringumstæðum, þegar svona reglubrot á útivelli hefir ekki áhrif á hana.

Í aðalmyndaglugga: Madelene Sagström og Nanna Koertz Madsen í liði Evrópu, greinilega brugðið,  stuttu eftir  dóminn á 13. braut um að Madelene hefði brotið reglu 13.3.