Ragnheiður Jónsdóttir | september. 17. 2019 | 07:45

Solheim Cup 2019: Catriona myndi ekki segja nei

Catriona Matthew útilokar ekki að hún muni bjóða sig fram til fyrirliðastarfa aftur í Solheim Cup eftir 2 ár.

Þá, árið 2021, fer Solheim Cup fram í Inverness Club í Ohio og mun lið Bandaríkjanna þá freista þess að hefna ófaranna frá sl. helgi.

Catriona var enn í sigurvímu eftir frábæran sigur lið hennar, liðs Evrópu, í Solheim Cup 2019, þar sem lið Evrópu bar sigurorð af liði Bandaríkjanna 14 1/2 – 13 1/2.

Ég ætla fyrst að leyfa þessu að seytla inn í vitundina (sigrinum), en maður veit aldrei, ég myndi ekki segja nei,“ sagði Catriona aðspurð um hvort hún hygðist bjóða sig fram til áframhaldandi fyrirliðastarfa.

Catriona sagði ennfremur að ekki væri hægt að toppa þennan sigur í heimalandi hennar og sagði að sýningin (Solheim Cup 2019) á Gleneagles hefði farið fram úr öllum væntingum hennar.

Hún sagði: „Þetta fer fram úr öllum væntingum. Mannfjöldinn á síðustu flötinni og lokaathöfnin var ótrúleg. Ég held að á síðustu flöt hafi ég aldrei séð annað eins, í sannleika sagt. Að þetta myndi vera svona tæpt og að öll keppnin velti á lokapúttinu gerði þetta þeim mun meira spennandi.“