Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 6. 2014 | 21:00

Sögulegt: 130 ára afmæli Jock Hutchison

Jack Fowler „Jock“ Hutchison (f.  6. júní 1884 – d. 27. september 1977) var skosk-bandarískur kylfingur, sem á 130 ára afmæli í dag.

Jock fæddist í St Andrews í Fife, Skotlandi en fluttist seinna til Bandaríkjanna og tók upp bandarískan ríkisborgararétt 1921.

Hann var fyrsti „Bandaríkjamaðurinn“ til þess að sigra Opna breska, en það var 1921. Árið eftir varð Walter Hagen sá fyrsti, fæddur í Bandaríkjunum sem sigraði Opna breska.

Hutchison vann tvö risamót á ferli sínum, en árið áður þ.e. 1920 sigraði hann í PGA Championship risamótinu.

Árið 1937 sigraði Hutchison í fyrsta öldungamóti PGA í Augusta National Golf Club, og árið 1947 vann hann þetta mót í 2. sinn.

Hutchison lést 93 ára í Evanston, Illinois. Hann hlaut kosningu í frægðarhöll kylfinga löngu eftir dánardægur sitt þ.e. 2010 og var formlega vígður inn í frægðarhöllina fyrir 3 árum þ.e. í maí 2011.