Adam Scott
Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 4. 2014 | 07:58

Scott á sjéns að verða nr. 1

Adam Scott  er nær draumi sínum um að verða nr. 1 á heimslistanum en hann hefir nokkru sinni verið.

Scott er sem stendur nr. 2 á heimslistanum en Ástralinn á mikla möguleika að fara fram úr Tiger að stigum og verða besti kylfingur heims þ.e. nr. 1 á heimslistanum þ.e. gangi honum vel á  WGC Cadillac Championship.

Reyndar verður Scott að sigra á Bláa Skrímslinu í Doral, Flórída, á sama tíma og Tiger verður að verða neðar en í 10. sæti.

Svo gæti hins vegar farið að Tiger segi sig úr mótinu og taki ekki þátt vegna bakmeiðsla, sem urðu til þess að hann dró sig úr Honda Classic og þá aukast möguleikar Scott enn.

„Ég þarf að vera í meðferð á hverjum degi til fimmtudags til þess að halda (bakmeiðslunum) niðri,“ sagði Tiger. „Við sjáum hvað setur.“

Nái Scott 1. sætinu verður það í 1. sinn að ástralskur kylfingur situr í því sæti frá því Greg Norman sat þar.

„Að verða nr.1 er meira draumur en markmið. Það er nokkuð sem ég hét sjálfum mér þegar ég spilaði sem krakki í Twin Waters eða jafnvel enn yngri þegar ég var að leika mér með plastkylfur,“ sagði Scott.

„Ég myndi elska það að verða nr. 1. Ég hugsa að það geti alveg gerst og finnst leikur minn ekki langt frá því að vera nr. 1 í heiminum.“