Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 18. 2013 | 10:00

Rose þakkar Foley sigur á US Open

Nýkrýndur sigurvegari US Open, Justin Rose hefir ausið lofi á  Sean Foley  og þakkar honum m.a. sigur sinn á US Open.

Rose var á sléttu pari, 70 höggum, lokahringinn og var 1 yfir í heildarskori, 2 höggum betri en Phil Mickelson og Jason Day.

Hinn 32 ára Rose var fljótur að þakka Foley árangurinn en nú nálgast óðum 4 ára afmæli þess að þeir hófu samstarf.  Foley vinnur líka með Tiger Woods og Hunter Mahan.

„Eftir 2 vikur á AT&T National verðum við búnir að starfa saman í 4 ár,“ sagði Rose. „Og mér finnst eins og golfleikur minn hafi orðið betri og betri með hverju árinu.“

„Að ég komi á US Open og finnist ég eiga raunhæfa möguleika á að vinna risamót þakka ég einkum boltaslættinum mínum.“

„Á síðasta ári leiddi ég á báðum mótaröðum (PGA Tour og Evrópumótaröðinni) hvað snertir hittar flatir á tilskyldum höggafjölda (ens. greens in regulation) og á þessu ári hef ég verið að bæta dræv tölfræðina mína.“

„Ég lengdi mig svolítið og var að hitta svolítið beinna og því þakka ég að mestu Sean (Foley).“

Sannur vinur

„Hann sendi mér líka falleg sms skilaboð á sunnudagsmorgninum, sem höfðu ekkert að gera með golf. Hann sagði eitthvað á þá leið að ég ætti að fara út þarna og verða sá maður sem pabbi hefði kennt mér að vera og sá sem börnin mín gætu litið upp til.“

„Sambandið sem við Sean eigum er miklu meira en bara samband leikmanns og þjálfara. Ég lít á hann sem sannan vin og lít til hans sem einhvers sem, ef ég hefði nokkru sinni spurningu um golf eða lífið, þá væri hann efstur á lista mínum yfir þá sem ég myndi leita til.“

„Hann (Foley) er mjög áhugaverður karakter og er sterkur andlega og hann skilar því mjög vel til þeirra sem hann þjálfar.“

Rose er þegar farinn að leggja á ráðin um fleiri risamótssigra og Foley trúir því að sjálfstraustið, sem hann (Rose) hafi fengið á Merion þar sem hann tryggði sér sigur ,að því er virtist taugalaus, með pörum á 17. og 18. braut sé ómetanlegt.“

„Þegar þú ferð út á golfvöll og ert kannski ekkert öruggur um sjálfan þig og síðan ferðu og sigrar á risamóti …. það er gríðarlega stór árangur,“ sagði Foley.

„Nú hefir eitthvað breyst innra með honum sem ekki er hægt að kenna, nokkuð sem aðeins er hægt að lesa um. Hann vaknar í dag vitandi það að þegar pressan er á honum og þegar hjartað er við að springa út úr brjósti hans, standist hann álagið.“

„Fólki er gjarnt að rifja upp upphaf feril hans þegar hann komst 21 sinnum ekki í gegnum niðurskurð. En þegar horft er á mótlæti á réttan hátt, þá er alltaf hægt að finna þar jarðveg fyrir vöxt. Hann hafði pabba sinn, mömmu sína og hann var bara of góður og hæfileikaríkur til þess að halda aftur af sér að eilífu. Það var of mikið líf, sem hann á eftir að lifa.“