Rory McIlroy
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 26. 2014 | 12:00

Rory segir sigurinn ólíkan brúðkaupi sínu

Norður-írski kylfingurinn, Rory McIlroy,  sem sigraði s.l. sunnudag, 25. maí 2014 á BMW PGA Championship á líklegast að baki sér eina viðburðaríkustu viku ævi sinnar.

Daginn fyrir mótið sleit hann áætluðu brúðkaupi sínu og dönsku tennisstjörnunnar Caroline Wozniacki.

Í viðtali eftir sigurinn í Wentworth sagði hann m.a. sigurinn ólíkan brúðkaupi sínu að því leyti að honum (sigrinum) hefði verið ætlað að vera (ens.: was meant to be).

Hann sagði þennan sigur jafnframt ótrúlegan, hann hefði ekki búist við honum, en fyrir mótið sagðist Rory m.a. vera hálf annars hugar og það mætti ekki búast við miklu af sér.

Hann sagði samt að besti staðurinn fyrir sig að vera á væri golfvöllurinn og það reyndist rétt; m.a. á lokahringnum þar sem hann töfraði fram sigurhring upp á 6 undir pari, 66 högg.

Rory hóf hringinn 7 höggum á eftir þeim sem búinn var að leiða allt mótið, Dananum Thomas Björn, sem lauk keppni á 75 höggum.