Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 13. 2012 | 11:00

Rory lýst vel á titilvörnina á US Open

Rory McIlroy segir að sér lítist vel á titilvörnina á US Open í San Francisco.  Rory var ekki búinn að komast í gegnum niðurskurð 3 mót í röð, þar til hann loks varð jafn öðrum í 7. sæti á St. Jude Classic um síðustu helgi.

„Það er gott að ég er loks ánægður með leik minn – mér fannst ég bara loks ná áfanga í síðustu viku,“ sagði McIlroy. „Ég hef aldrei dregið í efa getu mína, allir fara í gegnum tímabil þar sem þeir spila ekki eins vel og þeir vildu.“  Síðan bætti hann við: „Ég er aftur farinn að spila ágætis golf og ég er spenntur fyrir fimmtudeginum – Ég get ekki beðið.“

Rory vann sem kunnugt er US Open titilinn með 8 högga mun á næsta keppanda á Congressional á síðasta ári og sagði að árið sem hefði fylgt í kjölfarið hefði verið frábært.“

Nokkrar staðreyndir:

Það hefir ekki nokkrum tekist að sigra US Open tvö ár í röð frá því að Curtis Strange tókst það; en hann sigraði á US Open 1988 og 1989.

Bandaríkjamaðurinn Lee Janzen sigraði US Open síðast þegar það var haldið í Olympic Park í San Francisco árið 1998.

Samtals skor Rory McIlroy upp á  268 högg í Congressional Country Club í Bethesda er lægsta heildarskorið í 116 ára sögu US Open.

Snúum okkur aftur að Rory:

„Ég hef sigrað á nokkrum öðrum mótum frá því fyrir ári síðan og ég hef náð því að verða nr. 1 á heimslistanum þannig að mér hefir tekist að ná nokkrum af þeim markmiðum, sem ég setti mér,“ sagði Rory.

„Lífið hefir breyst s.l. 12 mánuði en ég er bara að einbeita mér að því að hlusta á fólk sem ég treysti og trúa á að ég hafi næga hæfileika og getu til þess að koma mér í gegnum erfiðleikana.“

„Ég er bara glaður að slæmi kaflinn varð ekkert of langur og nú er ég aftur farinn að spila eins og ég á að mér – það er margt jákvætt sem ég tek með mér inn í þessa viku. Það er frábært að reyna að verja titilinn sem ég vann á Congressional, en það er margt af góðum kylfingum og það verður að spila mikið af góðu golfi til að halda bikarnum.“

„Ég er að reyna að vera eins góður kylfingur og ég get, en láta það jafnframt ekki taka yfir allt líf mitt.“

„Ég vil gera alla venjulegu hlutina sem 23 ára gera og það verður sífellt erfiðara, en það er bara nokkuð sem ég verð að fást við,“ sagði Rory loks.

Spilafélagar Rory fyrstu tvo dagana á US Open 2012 verða Englendingarnir Luke Donald (nr. 1 á heimslistanum) og Lee Westwood (nr. 3 á heimslistanum) þ.e. topptríóið á heimslistanum spilar saman – og verður sérlega gaman að fylgjast með þeim!

Heimild: BBC Sports