Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 16. 2012 | 08:00

Q-school LET: Sjarmadísin indverska Sharmila í efsta sæti eftir 1. dag

Það eru gleðifréttir að indverskir kvenkylfingar, sem ekki hafa átt marga fulltrúa á stærstu golfmótaröðum heims, skulu nú eignast jafnglæsilegan fulltrúa og Sharmilu Nicollet, sem aldeilis er að slá í gegn í Q-school LET. Eftir 1. dag lokaúrtökumótsins er sjarmadísin indverska í 1. sæti ásamt hinni hollensku Chrisje de Vries.

Sharmila Nicollet

Eftirfarandi grein um Sharmilu eftir greinarhöfund hefir áður birtst á iGolf  3. nóvember 2010, undir heitinu:„Hver er kylfingurinn: Sharmila Nicollet?“ en birtist hér uppfærð og að nokkru breytt:

Indverski kylfingurinn Sharmila Nicollet var ekki að flýta sér að eltast við draumana um að verða atvinnukylfingur.

Þessi 19 ára stúlka (21 árs í dag, 2012) frá Bangalore gæti vel verið leikkona í Bollywood vegna hæðar sinnar og útlits, en Sharmila vill „leika“ á golfbrautum heimsins.

„Mér finnst gaman að horfa á kvikmyndir en ég hef engan áhuga á að verða leikkona. Áhugamál mín eru golf og tónlist,“ sagði Sharmila nú nýverið sem var hæst „rankaði“ kylfingur Indlands í unglingaflokki 15-16 ára.  Hún tók sér frí frá golfinu 17 ára til þess að einbeita sér að náminu en hún sneri aftur á golfbrautina á síðasta ári (2009) til þess að byrja feril sinn í atvinnumennsku.

Allt frá því hún hóf að spila á Ladies Asian Golf Tour á s.l. ári (2009) og allt frá því hún hellti sér út í atvinnumennskuna þá hefir Sharmila þá trú að hún eigi eftir að fara langan veg til þess að ná toppi í heimsgolfinu. „Ég er atvinnumaður í golfi, en enginn sérfræðingur enn, það er langur vegur í það sérstaklega hvað varðar andlega þáttinn og golfvallarstjórnunina,“ segir Sharmila, sem leggur stund á sálfræði.

Á þessu ári (2010) sigraði Sharmila þrívegis á Indlandi og varð í 2. sæti einu sinni og einnig í 3. sæti öðru sinni. 

Mynd hér að ofan; tvær góðar saman: Breski kylfingurinn Laura Davies (t.v.) þarna 44 ára og indverski kylfingurinn, Sharmila Nicollet, þarna 16 ára. Þær sigruðu í Challenge Match á Indian Ladies Masters, árið góða 2007 – en myndin er tekin af þeim stöllum fyrir 5 árum. Þarna mynda þær báðar „V“ með fingrunum fyrir „Victory“ þ.e. sigur. Skyldi enn vera það sama upp á teningnum hjá Sharmilu? … Þ.e. sigur í Q-school LET 2012?

Sharmila náði í gegnum niðurskurð í Sanya, þar sem hún varð T-51 og en varð því miður T-77 í  Suzhou-Taihu Ladies Open í Shanghai, sem fram fór (snemma í nóvember 2010) og komst ekki í gegnum niðurskurð. Mestu þar um réð slakur opnunarhringur hennar upp á 80 högg, en seinni var þeim mun betri 71 högg, sem var langlægsta skorið með annarra kylfinga á T-68 – T-77 svæðinu, sem sýnir bara að Sharmila á ekkert heima þar. Bara taugarnar að gefa sig á þessu fyrsta „stóra“ móti hennar!

Sharmila Nicollet

„Mér liggur ekkert á, ég ætla að taka því rólega; ég ætla ekki að stytta mér leið og missa úr einhverja þætti,“ sagði Sharmila.

Sharmilu líkaði vel að spila í Suzhou, en mótið er samvinnuverkefni LAGT (Ladies Asian Golf Tour); LET (Ladies European Tour) og CGA (China Golf Association).

„Golfvöllurinn (Suzhou) er góður og fallegur, en það er mjög kalt hér og vindur. Sjálfstraustið hjá mér var í lagi vegna þess að mér finnst golfleikur minn betri. Ég hætti við kaddýinn minn og notaðist við kaddýinn sem var í Suzhou, vegna þess að ég vildi taka mínar eigin ákvarðanir,“ sagði Sharmila.

Í augnablikinu stefnir Sharmila á að verða sterk á Indlandi og síðan Asíu. „Þar á eftir ætla ég að reyna að sigra í Evrópu og í Bandaríkjunum og festa mig í sessi sem einn af bestu atvinnukylfingum heims. Ég hef tímann mín meginn og ef mér tekst þetta hefir draumur minn rætst,“ sagði Sharmila,( en næst munum við geta fylgst með henni á Hero Honda Women’s India Open sem fram fer dagana 11.-13. nóvember  (2010)í DLF Golf & Country Club á Indlandi.„)

—————————————–

Sharmila Nicollet

Skv. greininni hér að ofan gekk Sharmilu ekkert sérlega vel á Suzhou Taihou í nóvember 2010; henni gekk aðeins betur á Hero Honda mótinu á heimavelli varð T-23… það hefir væntanlega farið í reynslubankann hjá henni og síðan þá er margt vatn runnið til sjávar. Eftir að hún gerðist atvinnumaður 2009 hefir hún leikið á fjölmörgum mótum  WGAI (Women´s Golf Tour in India) og spilað víðsvegar um Asíu á mótum Ladies Asia Tour t.a.m. í Kína, Indonesíu og í Thaílandi.

Erfiðlega gekk á sínum tíma að fá uppýsingar um Sharmilu, en það hefir breytst nokkuð á þessu rúma ári frá því greinin var skrifuð.  Upplýsingabrot eins og þessi eru t.a.m. auðfundin:

Sharmila er fædd 12. mars 1991 (þ.a.l. 21 árs í ár) og er 1,78 metrar á hæð.

Nokkra athygli vakti grein Indian Sports News í nóvember 2011 um Sharmilu, þar sem hún var nefnd: „The lanky long-hitter from Bangalore“, sem vakti ekkert sérlega hrifningu meðal kvenkyns golffréttamanna, vegna fremur niðrandi orðavals um hæð Sharmilu – en greinin hefir væntanlega náð tilgangi sínum… að vekja athygli á Sharmilu.  Sharmila er einnig til umfjöllunar í ýmsum öðrum golfblogg og golfvefsíðum s.s. Golf Babes vegna útlits síns, en hún þykir einstaklega fögur. Áhugamál Sharmilu hafa líka lítið breyst þau eru áfram golf og tónlist að viðbættu tísku og mótorsporti í dag.

Heimild: LET