Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 28. 2014 | 09:25

PGA: Tiger úr leik á Quicken Loans

Stóra frétt vikunnar í golfheiminum var að Tiger Woods væri að snúa aftur í keppnisgolfið eftir 3 mánaða fjarveru.

Hann kom aftur … bara ekki í langan tíma, því hann er nú úr leik, náði ekki niðurskurði í Quicken Loans National mótinu, en þetta er aðeins í 10. skipti á ferli Tiger, sem hann nær ekki niðurskurði.

Hann lék á 4 yfir pari, 75 höggum í gær, föstudaginn 27. júní. Samtals lék Tiger á 7 yfir pari (74 75).   Niðurskurður var miðaður við 3 yfir pari.

Þetta er samt líklega eina skiptið sem Tiger virðist bara nokkuð sáttur,  þrátt fyrir að ná ekki niðurskurði.

Hann sagði m.a. eftir hringinn í gær: „Ég koma aftur 4 vikum fyrr en ég hélt að mögulegt væri.  Bakið var í lagi. Ég fékk aftur tilfinninguna fyrir að spila keppnisgolf.  Ég gerði fullt af litlum einföldum mistökum.  Ég mislas og missti boltann á ranga hlið og náði ekki að bjarga litlum, auðveldum höggum.  Þetta eru allt smátriði sem ég get lagað.“