Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 7. 2013 | 09:30

PGA: Hárskerastóllinn frægi á TPC Sawgrass

Mót vikunnar á PGA Tour er hið fræga Players mót sem að venju fer fram á TPC Sawgrass.

Veður á PGA mótaröðinni það sem af er árs hefir ekkert verið sérstakt og ófá mótin sem frestað hefir verið vegna rigninga, þruma og eldinga eða jafnvel snjóa (Accenture Match Play).

Menn voru að gera sér vonir um að veðrið yrði nú eitthvað skárra þar sem mót vikunnar nú er í Flórída, en jafnvel þar hefir rignt eins og hellt væri úr fötu að undanförnu.  Úrkoma það sem af er hefir mælst jafnmikil og í Edinborg, Skotlandi fyrstu 6 mánuði ársins!

Á árunum 1977-1981 fór The Players fram við völl Sawgrass Country Club sem er við sömu götu beint á móti TPC Sawgrass, þar sem mótið fer fram nú. Árið 1979 vann Lanny Watkins mótið með skor upp á samtals 5 undir pari. Þetta ár var veður skelfilegt og skor leikmanna eftir því – mótið varð því ekki síður frægt fyrir „hárskerastólinn.“

Meðalskor leikmanna á The Players 1979 var 77,5 högg á laugardeginum og 78,6 högg á sunnudeginum.

Bob Murphy, fimmfaldur sigurvegari á PGA tour var t.a.m. með skor upp á 92 högg á sunnudeginum. Já, það er svo mikið sem 20 yfir pari!  …. á PGA mótaröðinni!!!

Í klúbbhúsi Sawgrass er háskerastóllinn þar sem félagar sátu í áður fyrr, þegar þeir fengu sér klippingu. Ben Crenshaw og nokkrir leikmenn PGA Tour fóru að nota stólinn, sem eins konar meðferðarstól eða skriftarstól, þar sem leikmenn sátu í og „skriftuðu“ hryllingssögur dagsins af vellinum.

8-faldur PGA Tour sigurvegarinn, Jim Colbert, útskýrði hvernig háskerastóllinn virkaði: „Reglan var að þetta varð að vera skor með tveimur tölustöfum, og þarna (1979) voru næstum allir með þannig skor á einhverri holu.“

Þegar mótið flutti sig yfir á TPC Sawgrass 1982 var stóllinn fluttur með. Hann var árum saman að baka til í klúbbhúsi TPC, áður en klúbbhúsið var tekið í gegn fyrir $ 32 milljónir, árið 2006.

Í nýja 77.000 ferfeta klúbbhúsinu sem byggt er í Miðjarðarhafsstíl er urmull af golfminjagripum og þar fremstur í flokki er hin frægi hárskerastóll, en hann heilsar leikmönnum við innganginn að búningsherbergjum leikmanna PGA Tour.

Hér að neðan má sjá mynd af háskerastólnum fræga:

Hárskerastóllinn frægi á TPC Sawgrass

Hárskerastóllinn frægi á TPC Sawgrass