Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 15. 2013 | 09:15

PGA: Eftirlitsmennirnir farnir að tjá sig um Tiger/Garcia uppákomuna á The Players

Uppákoman milli Tiger og Sergio Garcia á the Players hefir tekið nýja og óvænta stefnu löngu eftir að Tiger vann 4. titil sinn á þessu keppnistímabili á the Players.

Mikil umræða skapaðist um óvild kappanna í garð hvers annars og illa tímasett kylfuval Tiger. Nú hafa jafnvel eftirlitsmennirnir á TPC Sawgrass blandast í umræðuna.   Þeir segjast ekki hafa gefið Tiger grænt ljós á að fara að slá.

Garcia, sem var yfir bolta sínum sagði að Tiger hefði truflað leik sinn með því að draga 5-tré úr poka sínum (í 50 m fjarlægð), sem olli fagnaðarlátum áhorfenda, sem truflaði Garcia.

Tiger var hins vegar með aðra sýn á tilvikið.

„Eftirlitsmennirnir sögðu mér að slá þannig að ég dró kylfu úr pokanum til þess að vera tilbúinn að slá höggið mitt,“ útskýrði hann s.l. laugardag. „Síðan heyrði ég af þessum kommentum (Sergio Garcia) eftir á og það kemur ekki virkilega á óvart að hann (Sergio Garcia) sé að kvarta yfir einhverju.“

Einu vandkvæðin við útskýringar Tiger er að eftirlitsmennirnir sögðu í viðtali við Sports Illustrated að þeir hafi aldrei talað við Tiger.

„Hann spurði okkur einskis“ sagði eftirlitsmaðurinn Gary Anderson. „Við sögðum ekkert. Okkur er sagt að vera ekki að tala við leikmennina.“

John North, yfireftirlitsmaður fyrstu 3 holanna á TPC Sawgrass, sagði einnig að hann hefði ekki átt nein samskipti við Tiger.

„Ekkert var sagt við okkur og við tjáðum okkur ekki við hann,“ sagði hann við SI. „Ég var vonsvikinn að heyra hann vera með þessar athugasemdir. Við erum þarna til þess að aðstoða leikmennina og auka upplifun og aðstoða áhorfendur. Hann sagði bara það sem kom honum (Tiger) vel. Þetta var karakterlaust.“

Woods fékk fugl á holuna (par-5 2. holuna á TPC Sawgrass) – Garcia fékk skolla – og síðan vann Tiger the Players mótið s.l. sunnudag s.s. allir vita.