Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 7. 2018 | 00:15

PGA: Bones verður kaddý Justin Thomas

Jim „Bones“ MacKay, fyrrum kylfusveinn Phil Mickelson, mun verða kylfusveinn Justin Thomas á næsta móti PGA Tour, Sony Open, sem fer fram á Hawaíí.

Bones hefir að undanförnu starfað sem golffréttaskýrandi á NBC og Golf Channel.

Kylfusveinn Thomas, Jimmy Johnson, varð að lúta í lægra haldi fyrir iljarfellsbólgu (ens.: plantar fasciitis) eftir 2 hringi á  Sentry Tournament of Champions í Kapalua og sneri heim á meginland Bandaríkjanna til meðferðar og því vantar Thomas kylfusvein.

Pabbi Justin, Mike Thomas, bar kylfur hans á 3. hring á Plantation vellinum og fyrir lokahringinn er Justin í 30. sæti.

Ég er þreyttur í fótunum. Alltaf gaman að geta gert þetta fyrir soninn þó,“ sagði Mike í viðtali við GolfDigest.com.

Mike mun bera kylfur Justin lokahringinn í dag, en Bones tekur síðan við í næstu viku.

Síðasta mót sem Bones var kylfusveinn í PGA Tour móti var árið 2016 á FedEx St. Jude Classic en þá sá fyrir endann á samstarfi þeirra, samstarfi þar sem Phil vann 42. sinnum á PGA Tour þ.á.m. á 5 risamótum.

Mér finnst Justin frábær og ég hlakka til að vinna með honum,“ sagði Bones á Golf Channel.

Justin Thomas sigraði 5 sinnum á sl. ári, þ.á.m. í fyrsta risamóti sínu og FedExCup. Hann hefir nú þegar unnið einn sigur nú á 2017-2018 keppnistímabili PGA Tour.