Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 12. 2013 | 07:30

Ólafur Björn Loftsson í 3. sæti á West Orange móti OGA mótaraðarinnar í Flórída

Ólafur Björn Loftsson, NK varð í gær í 3. sæti á móti á OGA-mótaröðinni í Flórída, sem fram fór á West Orange golfvellinum.

Ólafur Björn lék á 3 undir pari, 68 höggum og var með 5 fugla, 12 pör og 1 skramba á hringnum.

Fyrir þriðja sætið hlaut Ólafur Björn $ 400 ( sem eru u.þ.b. 50.000 íslenskar krónur).

Í fyrsta sæti í mótinu varð Patrick Sheehan, sem sigrað hefir tvívegis á Nationawide mótaröðinni (nú Web.com mótaröðinni) á 7 undir pari, 64 höggum og í 2. sæti Camilo Benedetti frá Kólombíu á 6 undir pari 65 höggum. Þess mætti til gamans geta að LPGA kylfingurinn þýski Sandra Gal tók líka þátt í mótinu og varð í 5.-7. sæti á sléttu pari, 71 höggi.

Sandra Gal

Sandra Gal

Ólafur Björn hefir nú tvisvar sinnum sigrað á mótum á OGA mótaröðinni og átt a.m.k. tvo topp-5 árangra, sem er glæsilegt!

Á facebook síðu sem Ólafur Björn hefir nýlega opnað og setja má LIKE á með því að SMELLA HÉR: segir hann m.a. um mótið á West Orange:

„Lék á 68 höggum (-3) í dag á mínu stærsta, sterkasta og síðasta OGA móti í bili. Fékk 5 fugla, 12 pör og einn tvöfaldan skolla á hringnum. Hafnaði í 3. sæti þar sem ég laut lægra haldi fyrir 2 reynsluboltum með samanlögð 20 ár á stóru mótaröðunum. Fékk ávísun upp á rúmlega 50 þúsund krónur fyrir mótið. Keyri nú á eftir til Hilton Head í Suður-Karólínu fyrir fyrsta mót ársins á Egolf atvinnumannamótaröðinni.“

Til þess að sjá úrslitin á West Orange mótinu á OGA mótaröðinni SMELLIÐ HÉR: