Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 26. 2011 | 08:47

Ólafur Björn Loftsson meðal 10 efstu í kjöri um titilinn „Íþróttamaður ársins 2011”

Ólafur Björn Loftsson, NK, er meðal 10 íþróttamanna, sem efstir urðu í kjöri Samtaka Íþróttafréttamanna um titilinn „Íþróttamaður ársins,” að þessu sinni. Kylfingur hefir aldrei hlotið þennan heiðurstitil þau 55 ár sem viðurkenningin hefir verið veitt.    Sýnt verður beint frá verðlaunaafhendingunni í sjónvarpi, þann 5. janúar 2012 n.k. og vonast kylfingar landsins til þess að íþróttafréttamenn brjóti blað í sögu verðlaunaveitingarinnar að þessu sinni!

Ólafur Björn varð í sumar fyrsti íslenski kylfingurinn til þess að keppa á sterkustu golfmótaröð heims PGA mótaröðinni, þ.e. á Wyndham Championship og var aðeins 1 höggi frá því að keppa alla 4 dagana í þessu sterka móti, sem vannst af næsttekjuhæsta kylfingi PGA Tour í ár, Webb Simpson.  Fáir ef nokkrir íþróttamenn hafa kynnt land og þjóð og golf á Íslandi jafnmikið og Ólafur Björn gerði þá daga sem hann keppti í Wyndham.

Þess utan varð Ólafur Björn m.a. klúbbmeistari NK 2011 og er langhæstur íslenskra kylfinga á heimslista áhugamanna; er nú í 218. sæti af 6053, sem eru á þeim lista en það eitt sér sýnir hversu gríðarsterkur kylfingur Ólafur Björn er. Í sumar var Ólafur í 418. sæti komst hæst í 132. sætið eftir sigur á Cardinal mótinu, sem veitti honum keppnisrétt í Wyndham.

Ólafur Björn stundar nám við Charlotte háskóla og hefir nú í haust spilað með golfliði skólans með góðum árangri.

Alls hlutu 31 íþróttamaður atkvæði í kjöri íþróttafréttamanna. Aðrir íþróttamenn sem urðu meðal 10 efstu í kjöri Samtaka Íþróttafréttamanna um „Íþróttamann ársins” 2011 eru (í stafrófsröð):

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, handbolti
Aron Pálmason, handbolti
Ásdís Hjálmsdóttir, frjálsar íþróttir
Heiðar Helguson, knattspyrna
Jakob Örn Sigurðarson, körfubolti
Kári Steinn Karlsson, frjálsar íþróttir
Kolbeinn Sigþórsson, knattspyrna
Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrna
Þóra B. Helgadóttir, knattspyrna