Ólafur Björn Loftsson. Mynd: Í einkaeigu
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 24. 2014 | 12:00

Ólafur Björn komst í lokaúrtökumótið fyrir Opna breska

Ólafur Björn Loftsson, NK, tók þátt í úrtökumóti fyrir Opna breska risamótið, sem fram fór á Hankley Common golfvellinum.

Úrtökumótið fór fram í gær og varð Ólafur Björn í 1. sæti á 3 undir pari, 68 höggum ásamt áhugamanninum James Wallis.

Ólafur Björn tekur því þátt í lokaúrtökumótinu fyrir Opna breska.

Til þess að sjá lokastöðuna í Hankley Common úrtökumótinu SMELLIÐ HÉR: 

Hér má sjá það sem Ólafur Björn skrifaði á facebook síðu sína um þátttökuna og sigurinn í úrtökumótinu á Hankley Common:

„Frábær dagur að baki í Englandi. Tók þátt í fyrra stigi úrtökumóts fyrir opna breska meistaramótið þar sem 126 kylfingar á mínum velli kepptu um 12 sæti í lokaúrtökumótinu. Ég lék á 68 (-3) höggum, sigraði mótið og komst örugglega áfram. Fékk um 155 þúsund krónur í verðlaun fyrir sigurinn en það voru veitt peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin.

Völlurinn sem ég spilaði í dag, Hankley Common, erstórkostlegur völlur og hann hentaði mér vel. Mjög krefjandi með þröngar og grjótharðar brautir sem er eitthvað sem ég kann að meta.

Ég fékk sjö fugla á hringnum og fjóra skolla þar sem þrír af skollunum komu eftir þrípútt. Pútterinn var samt sjóðandi heitur og setti ég mörg löng pútt niður. Þarf bara aðeins að fínpússa stuttu púttin. Ég notaði nánast einungis við 3-tré af teig því ég var að slá vel með því og það var líka alveg nóg því rúllið var mikið og boltinn skilaði sér langt. Hitti flestar brautirnar sem var mjög mikilvægt. Margt frábært í dag en þarf samt aðeins að vinna í nokkrum atriðum. Tók tveggja tíma æfingu eftir hringinn í dag og náði að stimpla boltasláttinn og stuttu púttin ágætlega inn.

Er búinn að færa mig í norðurátt og hef keppni á Europro móti á miðvikudaginn. Síðan fer lokaúrtökumótið fyrir opna breska fram þann 1. júlí. Spennandi dagskrá á næstu dögum.“