Ragnar Már Garðarsson, GKG, á 1. teig á glæsilokahringnum á Egils Gull mótinu þar sem Ragnar Már setti nýtt vallarmet af hvítum teigum – 62 högg!!! Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 2. 2014 | 14:30

NÝTT!!! Hvað er heitt og hvað afleitt?

Nú í sumar verður farið af stað með nýjan greinarflokk hér á  Golf 1 sem ber heitið „Hvað er heitt og hvað afleitt?“ sem er í raun bein þýðing og stæling á sambærilegum greinaflokki hjá CBSsports.com, sem heitir þar „What´s hot and what not … on the PGA tour.“

Á CBS er alltaf getið um 5 atriði (kylfinga, atburði, eitthvað innan golfheimsins), sem þykja hafa skarað fram úr í vikunni áður en greinin birtist og er þ.a.l. heitt og að sama skapi eitthvað sem var afleitt í vikunni þar á undan.

Í hinum íslenska greinaflokki er ekkert loforð gefið um fjölda þess sem er heitt eða afleitt að öðru leyti en því að alltaf er a.m.k. nefnt 1 atriði af hvoru og í mesta lagi 5 eins og á CBS.   Haldið er sömu röð og hjá CBS – það sem er nr. 1 er heitast og síðan volgnar niður listann.  Alveg eins með það sem er afleitt – það sem er frámunalega afleitt er í 1. sæti og síðan skánar eftir því sem fer niður listann.

Heitt/afleitt grein kemur nú í sumar alltaf til með að birtast á mánudögum.

Hér fer hinn fyrsti alíslenski „Hot“ listi:

Það sem var heitt í s.l. viku og helst þar til næsti listi birtist er eftirfarandi:

Nr. 1 Ragnar Már Garðarsson, GKG. Hann setti glæsilegt nýtt vallarmet á Strandarvelli af hvítum teigum, 1. júní 2014 (þ.e. í gær) – 62 högg á 2. móti Eimskipsmótaraðarinnar 2014 – Egils Gull mótinu.   Á glæsihringnum fékk Ragnar Már 9 fugla þ.á.m. 4 fugla í röð á síðustu 4 holurnar á hringnum. –  Ragnar Már sigraði auk þess á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar, Nettómótinu í Leirunni, í vikunni þar á undan.  Eigum við von á Eimskipsmótaraðar Grand Slam-i hjá Ragnari Má í sumar?  Stórglæsilegur árangur þetta hjá stórglæsilegum kylfingi!!!

Nr. 2 Berglind Björnsdóttir, GR.  Berglind vann 2. mót sitt á Eimskipsmótaröðinni í gær og jafnframt 2. Egils Gull mótið sitt, sem kemur ekkert á óvart því Berglind er jú algert gull af manneskju.  Hún virðist líka vera einn af þeim kylfingum sem gengur vel í keppnum í vondu veðri a.m.k. skiptir hún ekki um skap hvort heldur henni gengur vel eða illa við slíkar aðstæður … er alltaf jafnindæl, sem er merkilegt í ljósi þess hveru mikil keppnismanneskja hún er!

Nr. 3 Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK. Henni er búið að takast það sem engum öðrum hefir tekist á Eimskipsmótaröðinni það sem af er þessa keppnistímabils en það er að verða í 2. sæti í báðum mótum sem haldin hafa verið.  Það er hrein unun að horfa á fallega sveiflu Guðrúnar Brár og hún er til alls vís í sumar!  Hún barðist líka eins og ljón í gær á Egils Gull mótinu og saxaði jafnt og þétt á 6 högga forskot Berglindar þannig að í lokin munaði bara 1 höggi milli þeirra.   Mikil baráttu- og keppnismanneskja á ferð þar sem Guðrún Brá er!

Nr. 4 Gísli Sveinbergsson GK og Birgir Björn Magnússon, GK.  Gísli varð í 2. sæti í karlaflokki á Egils Gull mótinu og bætti sig með hverjum hring, líkt og Birgir Björn í 6. sæti, en báðir voru þessir „drengir“ úr GK á 2. besta skorinu lokahringinn – 3 undir pari, 67 glæsihöggum!!!

Nr. 5 Þátttakendurnir í US Kids European Championship mótinu í Skotlandi sem fram fór 26.-29. maí í s.l. viku: þeir  Sigurður Arnar Garðarsson, GKG (sem var fyrir lokahringinn í efsta sæti og endaði í 6. sæti í sínum flokki 12 ára stráka af 70 þátttakendum);  Kjartan Óskar Guðmundsson, NK; Sigurður Gauti Hilmarsson, NK og þeir  Jóel Gauti Bjarkason, GKG sem hafnaði í 9. sæti í sínum aldursflokki 15-18 ára pilta og Bjarki Aðalsteinsson, GKG.   Tveir topp-10 árangrar hjá 5 íslenskum keppendum erlendis er ekkert annað en stórgóður árangur!!!

Það sem var afleitt í sl. viku:

Nr. 1 Veðrið.  Djö… skítaveður – Rok og rigning.  Er ekki annars komið sumar?  Það sem er verst við slæma veðrið er auðvitað að margir kylfingar njóta sín ekki og ná ekki að sýna sínar bestu hliðar í mótum.  Hvað Eimskipsmótaröðina varðar er veður búið að vera leiðinlegt bæði skiptin sem mót hafa verið haldin og það er afleitt og tekur öll sætin þessa vikuna 1-5…