Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 29. 2012 | 20:00

NÝTT! Nýju stúlkurnar á LET 2012 (1. grein af 34): Carly Booth

Hér á Golf 1 hafa allir þeir sem hlutu kortin sín í gegnum Q-school á PGA, LPGA og á Evróputúrinn, keppnistímabilið 2012, verið kynntir og nú á bara eftir að kynna þær stúlkur sem hlutu kortin sín á LET í ár.

Í janúar á þessu ári fór fram lokaúrtökumót Q-school LET á La Manga á Spáni.  Meðal þeirra 72 sem komust af 1. stigi úrtökumótsins á lokaúrtökumótið var Tinna Jóhannsdóttir, GK. Alls voru 101 stúlka, sem spilaði á lokaúrtökumótinu og voru spilaðir 5 hringir og niðurskurður um helming þ.e. í 50 stúlkur eftir 4 hringi. Því miður var Tinna ekki ein af þeim sem komust í gegnum niðurskurð.  Hún hlaut því spilarétt í flokki 11 a á LET, sem aðallega felst í keppnisrétti á LET Access Series.

Fyrstu 4 hringina voru Norður- og Suðurvöllur La Manga spilaðir til skiptis og lokahringurinn á Suðurvellinum. Þær 50 sem eftir voru kepptu um eitt af 30 efstu sætunum og um kortið sitt þ.e. fullan keppnisrétt á LET í flokki 8a, hinar 20 fengu minni spilarétt og eru í flokki 9b.  Aðeins þær sem urðu í flokki 8a verða kynntar hér á Golf 1, þ.e. 30 efstu stúlkurnar + 4 aðrar stúlkur og verður ástæða þess getið hér að neðan.

Í ár fóru leikar nefnilega þannig að 6 stúlkur: hin skoska Carly Booth, spænsku stúlkurnar Laura Cabanillas og Mireia Prat, Sharmila Nicolet frá Indlandi, Hannah Burke frá Englandi og Miriam Nagl frá Þýskalandi voru jafnar í 29. sæti og því kom til hörku umspils milli þeirra, þar sem keppt var um þau 2 kort sem eftir voru (þ.e. 29. og 30. sætið í 8 a flokki LET).  Þær Laura Cabanillas og Sharmila Nicolet unnu umspilið og hlutu því fullan keppnisrétt á LET 2012.  Hinar 4 sem töpuðu í umspilinu verða líka kynntar á Golf 1 og því má eiga von á 34 kynningum á „Nýju stúlkunum á LET.“ Hafður verður sami háttur á og áður, fyrst byrjað að kynna stúlkurnar 6 sem urðu jafnar í 29. sæti – byrjað á þeim 4 töpuðu í umspilinu og síðan þær kynntar, sem urðu í 30. og 29. sæti o.s.frv og endað á ensku stúlkunni Jodi Ewart, sem sigraði í Q-school LET 2012.

Af þeim 4, sem töpuðu umspilinu verður á Carly Booth frá Skotlandi kynnt fyrst, en hún fékk skv. ofangreindu ekki fullan spilarétt á LET og var ein 4 af 6 sem tapaði í umspilinu. Hún hefir svo sannarlega bætt fyrir það og er komin í 1. sæti á stigalista LET og sannast þar hið fornkveðna að hinir síðustu verði fyrstir!

Carly byrjaði á því að sigra Dinard Ladies Open á LET Access Series í ár, móti sem Tinna „okkar“ Jóhannsdóttir tók líka þátt í. Síðan þá hefir Carly sigrað á Opna skoska og Opna svissneska á LET. Það merkilega er að Carly hefir í öllum tilvikum sigrað eftir umspil og hefir því svo sannarlega bætt fyrir tapið í umspilinu í Q-school, en Carly er að eigin sögn afar tapsár.  Þetta allt og það bara á nýliðaári Carly, án þess að hún hafi í upphafi verið með fullan keppnisrétt á LET! Vegna góðs árangurs er Carly nú búin að tryggja sér keppnisrétt á LET það sem eftir er árs og 2013.

Sjá má kynningu Golf 1 á Carly Booth með því að SMELLA HÉR: 

Sjá má úrslitin í Q-school LET 2012 á La Manga golfvellinum á Spáni með því að SMELLA HÉR: