Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 19. 2013 | 07:00

NÝTT!!! Nýju stúlkurnar á LET 2014

Þó Valdís Þóra „okkar“ Jónsdóttir, GL, hafi ekki komist í gegnum Lalla Aicha Tour School LET  að þessu sinni var það 31 kylfingur, sem „útskrifaðist“ úr skólanum þ.e. var á lægsta skorinu eftir 5 hringi á golfvöllum Al Maaden og Samanah Country Club í Marokkó, en lokaúrtökumótinu lauk í gær, 18. desember 2013.

Golf 1 verður nú, sem fyrri ár, með kynningu á þessum glæsilegu kylfingum, sem nú eru búnar að tryggja sér kortin sín á Evrópumótaröð kvenna næsta árið, þ.e. keppnistímabilið 2014.

Fyrst ber að geta það að það var „norska frænka okkar“ Caroline Martens, sem sigraði í Q-school að þessu sinni eftir glæsilokahring upp á 8 undir pari, 64 högg og átti hún 8 högg á næstu keppendur, þ.e. Sally Watson frá Skotlandi og Steffi Kirchmayr frá Þýskalandi, sem deildu 2. sætinu.

„Þetta er frábær tilfinning,“ sagði Caroline Martens, eftir að ljóst var að hún hefði sigrað í Lalla Aicha Tour School. „Ég spilaði frámunalega vel og gerði engin mistök þarna út. Ég var að slá boltann fullkomlega, ég púttaði vel. Þetta var frábær golfhringur, sá besti sem ég hef spilað,“ sagði Caroline, sem var með mömmu sína, Ingrid, á pokanum.

„Eina orðið sem ég hugsaði um í hverju höggi á hverjum degi var ÞOLINMÆÐI. Þetta er maraþonvika, ég varð að vera þolinmóð; þetta er ekki búið þar til að það er búið. Jafnvel í síðasta púttinu á 18. sagði ég áfram við sjálfa mig, ég verð að vera þolinmóð, ég verð að vera þolinmóð, bara anda, taka eitt högg í einu, ekki fara fram úr mér og njóta andartaksins virkilega.“

Fjórða sætinu deildu 2 kylfingar frá Svíþjóð:  Josephine Janson og Viva Schlasberg, ásamt Nobuhle Dlamini,  frá Swazilandi.

Það er sögulegt að í fyrsta sinn mun kylfingur frá Swazilandi keppa á LET, en það er Nobuhle Dlamini.  Þetta sýnir hversu geysiútbreidd golfíþróttin er að verða!

Annað fréttnæmt frá 5. og lokahring Lalla Aicha Tour School var að franski kylfingurinn Lucie Andre fór holu í höggi. Hún notaði 6-járnið sitt  í ásinn, sem kom á par-3, 3. braut golfvallar Samanah Country Club.  Þetta var 2. ásinn hennar í úrtökumóti LET, en sá fyrsti kom á Norður-velli La Manga, á Spáni, sem sýnir að margar stúlknanna eru ekki svo „nýjar“ heldur „gamlar í hettunni“ búnar að taka þátt í fleira en 1 og 2 úrtökumótum.   Andre deildi 23. sætinu að þessu sinni.

Nokkrar eru þó algerlega „nýjar“ en það eru m.a.: Nobuhle Dlamini sem  skrifaði sig í sögubækurnar, Ariane Provot og Isabelle Boineau frá Frakklandi, Kim Williams frá Suður-Afríku, hin bandaríska Tessa Teachman , Krista Bakker frá Finnlandi, Nina Muehl frá Austurríki, Karolin Lampert frá Þýskalandi, Charlotte Thompson frá Englandi og kylfingurinn með skemmtilega nafnið Victoria Lovelady frá Brasilíu.

Loks ber að geta þess að til þess að komast í þennan eftirsótta hóp 31 kylfings, sem hlaut kortið sitt og keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna 2014, þá þurftu keppendur að vera með samtals skor upp á 2 yfir pari eða betra. Sigurskor norsku frænku okkar Caroline Martens var upp á samtals 13 undir pari!!!

Það verður eflaust ekki langt að bíða að Martens verður farin að keppa á LPGA og maður verður farin að lesa um hana í golffréttasíðum á borð við „Golfbabes“ en fyrir utan að vera einstaklega góður kylfingur þykir hún einnig einkar glæsileg útlits.

Til þess að sjá lokastöðuna á lokaúrtökumótinu fyrir LET í Marokkó SMELLIÐ HÉR: