Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 17. 2012 | 21:00

NÝTT!: Nýju strákarnir á Evrópumótaröðinni 2012

Golf 1 hefir í kvöld lokið við að kynna þær 40 stúlkur, sem eru „nýliðar“ nú í ár á LPGA mótaröðinni bandarísku. Mótið fór fram á Legends og Champions golfvöllunum í Flórída og lauk með að thaílensk stúlka Junthima Gulyanamitta stóð uppi sem sigurvegari. Þar áður hafa allir strákarnir sem eru nýliðar á bandaríska PGA 2012 verið kynntir.  Nú beinir Golf 1 sjónum sínum til Evrópu og nýliða á helstu 2 mótaröðum þar: Evrópumótaröð karla og LET (ens. Ladies European Tour).  Byrjað verður á strákunum.

Á morgun birtist því fyrsta greinin um nýju strákana á Evrópumótaröðinni 2012, en 37 efstu á lokaúrtökumótinu, sem fram fór á PGA Catalunya golfvellinum á Spáni komust áfram.

Hér eru nokkrar staðreyndir um úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina, sem fram fer í 3 stigum. Þrír Íslendingar tóku að þessu sinni þátt í undanúrtökumótunum. Á 1. stigi spiluðu Ólafur Már Sigurðsson og Þórður Rafn Gissurarson í Fleesensee úrtökumóti 1. stigsins, en báðir náðu ekki upp á 2. stig.  Á því stigi spilaði hins vegar Birgir Leifur Hafþórsson, en honum tókst ekki að komast í lokaúrtökumótið. Aðrar staðreyndir um úrtökumótin á Evrópumótaröð karla 2011 eru eftirfarandi:

Alls tóku 957 kylfingar þátt í Q-school á stigunum 3 samanlagt. 777 spiluðu á 1. stigi, síðan bættust 108 nýir við á 2. stigi og 72 aðrir spiluðu beint á lokaúrtökumótinu.

– Það voru samtals 37 kylfingar sem hlutu kortin sín á Evrópumótaröðina 2012.

– Það voru 6 kylfingar sem spiluðu á öllum stigum úrtökumótanna á Q-school og unnu sér inn kortið sitt. Það eru: Hans Peter Bacher, Wil Besseling, Emiliano Grillo, Adrian Otaegui, Scott Pinckney og Taco Remkes.

– Það voru 11 kylfingar sem komu beint inn á 2. stigið (líkt og Birgir Leifur gerði) og unnu sér inn kortið sitt.

– Hinir 20 hlutu kortið sitt eftir að hafa fengið að fara beint inn á lokaúrtökumótið.

– Af  þeim sem komust í gegn eru 17 nýliðar á Evrópumótaröðinni.

– Af þessum 37 voru 9 með fullan spilarétt á Evrópumótaröðinni á keppnistímabilinu 2011.

– Þessir 37 strákar sem hlutu kortin sín komu frá 13 þjóðlöndum.

– Hér verður þjóðlandanna getið og hversu margir kylfingar frá hverju landi komust á Evrópumótaröðina : England 9, Holland og Suður-Afríka 5 (hvort land), Frakkland 4, Spánn og Svíþjóð 3 (hvort land), Skotland 2 og Argentína, Austurríki, Danmörk, Þýskaland, Noregur og Bandaríkin 1 kylfingur, hvert land.

Að 5 kylfingar komist á Evrópumótaröðina frá Hollandi er met þar í landi en þessir fræknu hollensku kylfingar eru: Wil Besseling, Maarten Lafeber, Taco Remkes, Reiner Saxton og Tim Sluiter.

– Yngsti kylfingurinn á lokaúrtökumótinu var Adrian Otagui frá Spáni og hlaut hann kortið sitt. Hann var 19 ára og 24 daga gamall og hlaut 23. kortið, sem í boði var.

– Gary Orr var elsti kylfingurinn til þess að hljóta kortið sitt 2012. Hann var  44 ára og 218 daga. Hann hlaut 8. kortið sem í boði var.

– Gary Orr og Scott Pinckney voru á besta skorinu á lokahringnum 65 (-7). Orr hóf daginn T-28 og lauk keppni í 8. sæti. Pinckney hóf keppni T-66 og lauk keppni í 24. sæti.

Á morgun verða fyrstu strákarnir af þessum 37 kynntir þ.e. Victor Riu frá Argentínu og Maarten Lafeber frá Hollandi.  Þetta verður 1. greinin af 21, en síðasta greinin sú 21. af 21 verður um sigurvegarann David Dixon frá Englandi. Hafður verður sami háttur á og í greinaröðinni um „Nýju stúlkurnar á LPGA 2012″ þ.e. byrjað á þeim sem varð í neðsta sæti og endað á þeim sem varð í efsta.

Heimild: europeantour.com