Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 1. 2013 | 15:00

Nýtt!!! Golfvellir í Sviss (1/102): Golf Club de Genève

Eins og lesendur Golf 1 hafa tekið eftir er Icelandair komið með nýjan áfangastað: Genf í Svíss. Sjá auglýsingu efst í hægra horni Golf 1 síðunnar.

Nú er nokkuð víst að golf er ekki það sem fyrst kemur til hugar þegar minnst er á Sviss.  Það er fremur að fólk hugsi um Rauða Krossinn, Alþjóðastofnanir, Banka, Skíði, Fjallakofa, Gönguferðir, Fjallaklifur, Heiðu, Spätzle, Súkkulaði, Osta, Fondue, Úr og klukkur o.m.fl. áður en kemur að golfi.

Frá golfvelli Golf Club de Genève

Frá golfvelli Golf Club de Genève

Svissneskir golfvellir og svissneskir kylfingar eru ekkert sérlega þekktir hér á landi. Þó Sviss sé lítið land eru þó þegar um 100 golfvellir þar, sem hægt er að velja um og í undirbúningi að byggja fleiri, því golf nýtur sívaxandi vinsælda.  Eitt ber þó að taka fram strax; Sviss er dýrt land og þ.a.l. er ekkert ódýrt að spila golf í Sviss fyrir þá sem heimsækja vellina og eins er golf dýr íþrótt fyrir þá sem hana stunda en félagsgjöld óheyrilega há og í raun ekki nema fyrir mjög vel stæða að spila golf í Sviss, þó þetta sé hægt og rólega að breytast.

Meðal þekktustu svissnesku kylfinganna eru André Bossert (f. 14. nóvember 1963) , til dagsins í dag fyrsti og eini svissneski kylfingurinn sem sigrað hefir á Evrópumótaröðinni (en André spilaði á sínum tíma á Áskorendamótaröðinni, Evrópumótaröðinni og suður-afríska Sólskinstúrnum) og Anaïs Magetti og Caroline Rominger sem spila á LET. Sjá má kynningu Golf 1 á Anaïs með því að SMELLA HÉR: 

En snúum okkur nú að golfvöllum í Sviss. Hér fer fyrsta greinin af 102, þar sem golfvellir í Sviss verða kynntir (hér fyrst um sinn verða aðeins 7 kynntir sem eru nálægt eða í kringum Genf).

Þeir sem kaupa sér farmiða með Icelandair og hafa hug á að spila golf í Genf eru heppnir, því í Genf er 2. besti golfvöllur Sviss staðsettur þ.e. golfvöllur Golf Club de Genève.   Þetta er Robert Trent Jones hannaður golfvöllur, sem er opinn aðeins á morgnanna fyrir almenning þriðjudaga-föstudaga.  Völlurinn er einn af fáum í Evrópu, sem hannaður er af Robert Trent Jones utan Spánar, Portúgal, Ítalíu og Frakklands.

Þetta er par-72 skógarvöllur sem opnaði dyr sínar fyrir almenningi 1973 og er því 40 ára í ár. Golfklúbburinn er þó mun eldri en hann var stofnaður 1921.

Hann er í suð-vestur horni Sviss þar sem Genfarvatn rennur í Rhône ánna, á landamærum Frakklands. Genf er sú borg heimsins þar sem lífsstandardinn þykir hvað hæstur í heiminum …. og það sama má segja um golf í Golf Club de Genève. Völlurinn er aðeins í 5 km fjarlægð frá miðborg Genfar í suð-austur.  Nágranni vallarins í Cologny er hin fræga Villa Diodati, þar sem Mary Shelley skrifaði Frankenstein og Lord Byron varði sumarfríum sínum.

Frá golfvellinum eru mörg draumaútsýni á Genfarvatn og mikið er af trjávöfðum hundslappa-brautum (sérstaklega ber að minnast á 2., 6.  og 16. holuna en sú síðastgreinda er einkennisholan) og  stórum flötum (sérlega er sameiginleg flöt 9. og 18. holu, stór). Mikið er af vatnshindrunum og þar þykir einkum 176 yarda, par-3 holan þ.e. sú 17. erfið og hefir eyðilagt margan annars góðan hringinn.

Alþjóðlegar keppnir hafa verið haldnar á vellinum. T.a.m. fór áhugamannaliðamót kvenkylfinga, Espirito Santo keppnin 1992  fram á golfvelli  Golf Club de Genève og þar vann lið bandarísku kvennanna í 8. sinn.  Rolex Trophy á evrópsku Áskorendamótaröðinni fer fram á vellinum á hverju ári.

Upplýsingar:

Heimilisfang: 70 Route de la Capite, 1223 Cologny, Sviss

Sími: (41) 0 22 707 4800

Heimasíða: SMELLIÐ HÉR: