Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 14. 2019 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2019: Pajaree Anannarukarn (18/58)

Hér verða líkt og á undanförnum árum kynntar þær stúlkur sem hlutu kortin sín á LPGA fyrir 2019 keppnistímabilið. Þetta eru þær sem urðu í 45. sæti eða voru jafnar í 45. sæti á lokaúrtökumóti LPGA og efstu 10 á peningalista 2. deildarinnar þ.e. Symetra Tour.

Í ár voru 48 stúlkur sem komust á LPGA gegnum lokaúrtökumótið og síðan einnig þær 10, sem efstar urðu á peningalista Symetra Tour eða alls 58 stúlkur.

Hér hafa 10 efstu á peningalista Symetra Tour verið kynntar sem og þær sem jafnar voru í 45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA, en það eru þær Karen Chung, frá Bandaríkjunum; P.K. Kongkraphan frá Thaílandi; Louise Strahle frá Svíþjóð og Robyn Choi frá Ástralíu.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í lokaúrtökumóti LPGA en varð ekki meðal efstu 45 og náði því ekki að endurnýja kortið sitt og fastan keppnisrétt á LPGA næsta keppnistímabil.

Það voru 6 stúlkur, sem deildu 39. sætinu en það eru: Lee Lopez, Sandra Changkija, Lauren Coughlin og Stephanie Kono frá Bandaríkjunum; Pajaree Anannarukarn frá Thaílandi og Guilia Molinaro frá Ítalíu. Þessar 6 léku allar á samtals 9 yfir pari á lokaúrtökumótinu, hver. Lauren Coughlin, Guilia Molinaro og Sandra Changkija hafa þegar verið kynntar og í dag er það Pajaree Anannarukarn, sem verður kynnt.

Pajaree Anannarukarn er fædd í Bankok, Thailandi og er aðeins 18 ára.

Í Thaílandi stundaði hún nám í The American School of Bankok.

Hún sigraði m.a. tvívegis í Thailandi 2017 þ.e. í Singha Masters í Chiang Rai í byrjun april 2017 og  í Singha-SAT Toyota Championship, sem fram fór í Royal Hills Golf and Resort Spa í Nakhon Nayok, Thailandi, 28. apríl 2017.

Keppnistímabilið 2018 spilaði Pajaree á Symetra Tour og var það nýliðaár hennar þar.Þar vann hún sér inn u.þ.b. $ 45.000 í vinningsfé.

Eftir þátttöku í lokaúrtökumóti LPGA, þ.e. LPGA Q-school, þar sem Pajaree rétt náði inn, er þessi unga thaílenska stúlka nú komin á mótaröð þeirra bestu í kvennagolfinu, LPGA, þar sem hún spilar keppnistímabilið 2019.