Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 10. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Rebecca Artis (46/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verður tekið til við að kynna þær 20 stúlkur sem hlutu fullan spilarétt og kortið sitt á LPGA. Búið er að kynna Maríu Torres, sem varð svo sannarlega að berjast fyrir veru sinni á LPGA og hafði betur í bráðabana gegn tveimur öðrum og var ein í 20. sæti. Eins er búið að kynna þær 4, sem deildu 16. sætinu: Briönnu Do, Celine Herbin, Dani Holmqvist og Jessy Tang; þær sem deildu 13. sætinu: Laetitiu Beck frá Ísrael, Cindy Lacrosse frá Bandaríkjunum og Gemmu Dryburgh frá Skotlandi og eins þær sem deildu 10. sætinu, þær Caroline Inglis, Kassidy Teare og Marissu Steen frá Bandaríkjunum. Síðan hafa verið kynntar þær sem deildu 7. sætinu; þær Georgia Hall frá Englandi og Lauren Coughlin og Amelia Lewis frá Bandaríkjunum og þær tvær sem deildu 5. sætinu: Robynn Ree frá Bandaríkjunum og Luna Sobron Galmes, frá Spáni.

Nú á bara eftir að kynna þær 4 sem voru í efstu sætum á lokaúrtökumótinu, en það eru: í 4. sæti Rebecca Artis frá Ástralíu, en hún lék á samtals 8 undir pari, 352 höggum; í 3. sæti Paulu Reto frá S-Afríku, en hún lék á samtals 9 undir pari, 351 höggi; í 2. Tiffany Chan, frá Hong Kong, en hún lék á samtals 11 undir pari, 349 höggum og síðan sigurvegarinn Nasa Hataoka frá Japan, en hún lék á samtals 12 undir pari, 348 höggum.

Í dag verður að sjálfsögðu Rebecca Artis kynnt og síðan endað á sigurvegaranum Nösu Hataoka.

Rebecca Artis fæddist 21. nóvember 1988 og er því 29 ára. Hún er frá Coonabarabran í Ástralíu. Rebecca er 1,73 m á hæð.

Hún byrjaði í golfi 10 ára eftir að hafa fylgst með föður sínum í golfi á golfvelli nálægt heimili þeirra.

Rebecca nam við NSW Institute of Sport.

Þeir sem helst hafa haft áhrif á golfferil hennar segir Artis vera þjálfarann sinn Gary Edwin, skólastjóran Michael McEntyre, eiginmann sinn og föður.

Rebecca er frá litlum bæ í norðvesturhluta Ástralíu, í  New South Wales, Coonabarabran, eins og áður er komið fram og þegar hún óx úr grasi varð hún að keyra í 10 tíma heiman frá sér til Sydney, a.m.k. 6 sinnum á ári og í 18 klst til þess að hitta þjálfara sinn Edwin á Gullströndinni. Rebecca hét áður Rebecca Flood, en giftist kærasta sínum til margra ára og kylfusveini Geoff Artis og breytti því eftirnafni sínu.

Artis gerðist atvinnumaður í golfi 2010 eftir að hafa spilað á Ricoh Opna breska kvenrisamótinu, sem áhugamaður.

Nýliðaár Artis á Symetra Tour var 2010 – á mótaröðinni hefir hún 9 sinnum verið meðal efstu 10, þ.á.m. tvívegis árið 2017.

Artis hefir líka sigrað tvisvar á LET; fyrst árið 2013 á Helsingborg Open og síðan 2015 á Ladies Scottish Open, Artis átti glæsilokahring þar, upp á 66 högg og átti 2 högg á næstu konu þrátt fyrir að vera 6 höggum á eftir Suzann Pettersen fyrir lokahringinn.

Uppáhaldsgolfvöllur Artis er Kingston Heath.

Helstu áhugamál Artis eru að verja tíma með fjölskyldu og vinum, fara í verlsunarferðir og á ströndina.

Þegar ljóst var að Artis hefði fengið kortið sitt og full spilaréttindi á LPGA sagði hún:

Þetta er virkilega klikkað. Í allri hreinskilni er ég fegin að vikan er liðin. Ég hugsa að ég gæti ekki hafa spilað einn dag í viðbót. Ég bara virkilega reyndi að hafa stjórn á mér þarna úti í dag. Þetta er það sem við höfum verið að reyna að gera; að komast á LPGA. Ég er glöð er vikan er liðin.