Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 6. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Vicky Hurst  (17/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verða kynntar þær 13 stúlkur, sem deildu 32. sætinu og hlutu takmarkaðan spilarétt og í dag verður Vicky Hurst kynnt, en ellefu fyrstu af stúlkunum 13, Brittany Marchand og Maude Aimee Leblanc frá Kanada, Sophia Popov frá Þýskalandi, Martina Edberg og Camilla Lennarth frá Svíþjóð, Jennifer Hahn, Alexandra Newell og Lori Beth Adams frá Bandaríkjunum, Wichanee Meechai og Pannarat Thanapoolboonyaras frá Thaílandi, og Dottie Ardina frá Filippseyjum hafa þegar verið kynntar.

Vicky Hurst fæddist 19. júní 1990 í Joint Base Andrews, íMaryland, Bandaríkjunum og er því 27 ára.

Vicky hlaut menntun sína í Holy Trinity Episcopal Academy. Hún stóð sig vel í unglingagolfinu og var valinn leikmaður ársins AJGA 2007.

Vicky gerðist atvinnumaður í golfi 17 ára meðan hún var enn í menntaskóla þ.e. árið 2008.

Vicky hefir tvívegis komist í gegnum niðurskurð í risamótum og er besti árangur hennar í þeim T-18 árangur í Opna bandaríska kvenrisamótinu 2012.