Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 9. 2017 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Sakura Yokomine (3/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Þær sem rétt sluppu inn á LPGA mótaröðina í ár voru 5 stúlkur, sem deildu 45. sætinu þ.e. voru T-45 og var ein þeirra Sakura Yokomine . Katelyn Sepmoree og Lauren Kim hafa þegar verið kynnar og í dag er það Yokomine .

Sakura Yokomine fæddist 13. desember 1985 í Kanoya, Kagoshima, Japanog er því 31 árs.

Hún byrjaði að spila golf 8 ára og segir pabba sinn hafa haft mest áhrif á það.

Sakura gerðist atvinnumaður í golfi árið 2004.

Pabbi hennar er Yoshiro og eiginmaður Morikawa Yotaro.

Árið 2009 var Sakura efst á peningalista japanska LPGA (JLPGA).

Sakura hefir sigrað 23 sinnum á japanska LPGA.

Hún hefir spilað 36 sinnum á bandaríska LPGA frá árinu 2009, þegar hún var ekki félagi á LPGA og komst aðeins 5 sinnum ekki í gegnum niðurskurð; var 5 sinnum meðal 10 efstu, þ.á.m. tvívegis á risamótum.

Besti árangur Sakura í risamóti er T-7 árangur í US Women´s Open 2014.

Meðal áhugamála Sakura er að horfa á japanskar anime.

Sakura er með marga styrktaraðila en þeir helstu eru: Epson, Srixon, Asahi Soft Drinks, Le Coq Sportif (franskur golfvöruframleiðandi sem sér Yokomine m.a. fyrir öllum golffatnaði) ANA og Sato.