Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 4. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2018: Caroline Inglis (40/49)

Það voru 49 stúlkur sem hlutu spilarétt á LPGA mótaröðina 2018 í gegnum lokaúrtökumót LPGA sem fram fór á LPGA International vellinum í Flórída dagana 28. nóvember – 3. desember s.l.

Það voru 29 sem hlutu takmarkaðan spilarétt og 20 efstu stúlkurnar sem hlutu kortið sitt á LPGA þ.e. fullan þátttökurétt í öllum mótum LPGA 2018.

Venja hefir verið undanfarin ár að kynna „nýju“ stúlkurnar á LPGA og líkt og áður verður byrjað að kynna þær sem rétt sluppu inn á mótaröðina og hlutu takmarkaðan spilarétt endað á þeirri sem sigraði í lokaúrtökumótinu, en það var japanska stúlkan Nasa Hataoka.

Nú verður tekið til við að kynna þær 20 stúlkur sem hlutu fullan spilarétt og kortið sitt á LPGA. Búið er að kynna Maríu Torres, sem varð svo sannarlega að berjast fyrir veru sinni á LPGA og hafði betur í bráðabana gegn tveimur öðrum og var ein í 20. sæti. Eins er búið að kynna þær 4, sem deildu 16. sætinu: Briönnu Do, Celine Herbin, Dani Holmqvist og Jessy Tang; sem og þær sem deildu 13. sætinu: Laetitiu Beck frá Ísrael, Cindy Lacrosse frá Bandaríkjunum og Gemmu Dryburgh frá Skotlandi.

Þrjár stúlkur deildu 10. sætinu: Caroline Inglis, Kassidy Teare og Marissa Steen frá Bandaríkjunum. Þær léku allar á samtals 5 undir pari, 355 höggum, hver. Aðeins á eftir að kynna Caroline Inglis og verður það gert í dag.

Caroline Inglis er 23 ára dóttir William og Laurie Inglis og á einn bróður, Colin.  Hún er frá Eugene í Oregon.

Caroline Inglis byrjaði að spila golf 13 ára, en það var pabbi hennar sem kenndi henni golf og keyrði hana á öll mót á yngri árum og hlúði að golfleik hennar.

Inglis spilaði í bandaríska háskólagolfinu með liði University of Oregon (2012-2016) og má sjá afrek hennar þar með því að SMELLA HÉR: 

Sem áhugamaður varð Inglis m.a. fyrsti kylfingurinn í Oregon til þess að vera útnefnd Pac-12 Individual Champion (2014-15).

Inglis útskrifaðist frá háskólanum í Oregon 2016, með gráðu í viðskiptafræði.

Útskriftarár sitt úr háskóla, 2016 tók Inglis þátt í lokaúrtökumóti LPGA og varð T-44, þ.e. hlaut ekki nema takmarkaðan keppnisrétt á LPGA og spilaði aðallega á Symetra Tour árið 2017, þar sem hún náði niðurskurði í 15 af 20 mótum, sem hún spilaði í.

Í úrtökumótinu 2017 varð Inglis hins vegar eins og segir T-10 og er komin með kortið sitt og full spilaréttindi á LPGA, þetta keppnistímabili, 2018.

Meðal áhugamála Inglis eru að ganga, lesa, vera í ræktinni og ferðast.

Komast má á facebook síðu Inglis með því að SMELLA HÉR: