Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 21. 2018 | 14:00

Nýju stúlkurnar á LET 2018: Madeleine Stavnar (1/25)

Golf 1 mun nú kynna þær stúlkur sem hlutu fullan keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna, en lokaúrtökumótið fór fram í Marokkó í 16.-20. desember 2017.

Leiknir voru 5 hringir og voru stúlkurnar 60 að þessu sinni sem kepptu um kortið sitt, þ.á.m. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK.

Það voru 25 efstu stúlkurnar sem komust á LET og baráttan í ár var hörð.

T.a.m. voru 6 stúlkur jafnar í 24. sætinu á samtals 4 undir pari, 356 höggum og varð að koma til bráðabana milli þeirra því aðeins tvö sæti voru í boði þ.e. það 24. og 25.

Það voru tvær norskar stúlkur sem sigruðu í bráðabananum þ.e. þær Celine Borge og Madeleine Stavnar (báðar með örn á par-5 18. holuna þar sem úrslitin réðust).

Þær 4, sem sátu eftir með sárt ennið voru hin spænska Maria Palacios Siegenthaler; Julie Aime frá Frakklandi; Kiran Matharu frá Englandi og Tiia Koivisto frá Finnlandi.

Tekið verður til við að kynna norsku frænkur okkar sem nú spila á LET og voru svo heppnar að vinna bráðabanann og síðan koll af kolli og endað á þeirri sem varð nr. 1, en það var hin bandaríska Casey Danielson.

Í dag verður Madeleine Stavnar kynnt.

Madeleine Stavnar fæddist í Torsberg, Noregi, 9. desember 2000 og er því aðeins 17 ára.

Hún segir fjölskyldu og þjálfara hafa haft mest áhrif á golf sitt, sérstaklega bróður sinn, Sander.

Uppáhaldskylfing sinn segir hún vera Tiger og uppáhaldsgolfvöllinn Royal St. David´s.

Madeleine gerðist atvinnumaður í golfi nýorðin 16 ára þann 1. janúar 2017.

Helstu áhugamál utan golfsins eru ræktin, tónlist, kvikmyndir að ferðast og að vera með vinunum.

Stavnar er þrátt fyrir ungan aldur komin í 634. sæti á Rolex-heimslista kvenna!

Hún reyndi fyrir sér í fyrsta skipti á lokaúrtökumóti LET í fyrra og hlaut þá aðeins takmarkaðan spilarétt en er nú komin með kortið sitt á bestu kvengolfmótaröð Evrópu og fullan spilarétt – Geri aðrir betur!!!

Það verður gaman að fylgjast með þessari ungu, norsku frænku okkar!!!