Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 5. 2014 | 20:00

Nýju stúlkurnar á LET 2014: Isabelle Boineau (15/31)

Það var 31 stúlka sem komst í gegnum Lalla Aicha Tour School í Marokkó og hlaut kortið sitt á Evrópumótaröð kvenna, LET (Ladies European Tour).

Mótið fór fram dagana 14.-18. desember 2013 á golfvöllum Al Maaden og Samanah CC í Marrakech, Marokkó.  Leiknir voru 5 hringir  og eftir 4. hringinn var stúlkunum 92 sem upphaflega voru 94, fækkað niður í 60 og þar af hlutu 31 efstu eftir 5. og lokahringinn keppnisrétt á LET fyrir keppnistímabilið 2014.

Það voru 4 stúlkur sem deildu 15. sætinu (voru jafnar í 15.-18. sætinu) og komust inn á mótaröðina með skor upp á samtals 1 undir pari, 359 högg: Anais Magetti; Marina SalinasIsabelle Boineau og Cathryn Bristow.

Isabelle Boineau

Isabelle Boineau

Sú sem verður kynnt í kvöld er Isabelle Boineau, sem varð í 17.sætinu á eins og segir 359 höggum (74 74 69 69 73).

Isabelle fæddist 13. júní 1989 í Marseille og er því 24 ára. Það sem vekur athygli er að margir sterkir kvenkylfingar eru fæddir 13. júní t.a.m. landa Isabelle, Valentine Derrey og eins IK Kim og Særós Eva í GKG.

Isabelle er 1,68 á hæð með brún augu og hár. Hún byrjaði að spila golf 10 ára, þ.e. 1999 í Allauch Golf Club, í Frakklandi. Mesti áhrifavaldur þess að hún byrjaði í golfi var pabbi hennar Jean-Louis Boineau, það að hún hélt áfram þakkar hún fyrsta golfkennara sínum Dominique Menard, og fyrsti þjálfari hennar,  Alexandre Cardinal, hafði mikil áhrif á hana. Isabelle tók þátt í bandaríska háskólagolfinu en hún lék kvennagolfliði University of Arizona og útskrifaðist með gráðu í viðskipta- og íþróttafræðum.

Meðal helstu áhugamála Isabelle fyrir utan golfið er að horfa á fótbolta eða NBA Play Offs, spila tennis, synda og auk þess finnst henni gaman að fara í kvikmyndahús og vera með vinum sínum.

Sjá má nýlegt viðtal fréttafulltrúa LET við Isabelle með því að SMELLA HÉR: