Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 20. 2014 | 18:00

Nýju stúlkurnar á LET 2014: Julie Tvede – (11/31)

Það var 31 stúlka sem komst í gegnum Lalla Aicha Tour School í Marokkó og hlaut kortið sitt á Evrópumótaröð kvenna, LET (Ladies European Tour).

Mótið fór fram dagana 14.-18. desember 2013 á golfvöllum Al Maaden og Samanah CC í Marrakech, Marokkó.  Leiknir voru 5 hringir  og eftir 4. hringinn var stúlkunum 92 sem upphaflega voru 94, fækkað niður í 60 og þar af hlutu 31 efstu eftir 5. og lokahringinn keppnisrétt á LET fyrir keppnistímabilið 2014.

Það voru 4 stúlkur sem deildu 19. sætinu (voru jafnar í 19.-22. sætinu) og komust inn á mótaröðina með skor upp á samtals slétt par, 360 högg:     Fiona PuvoKrista Bakker, Julie Tvede  og Elina Nummenpaa.

Finnski kylfingurinn Elina Nummenpaa hefir þegar verið kynnt og í dag er það Julie Tvede, sem varð í 21. sæti, sem verður kynnt, en hún var með lokaskor  upp á 68 73 68 76 75.

Julie Tvede er fædd 21. maí 1980 í Fredriksberg í Danmörku og er því 33 ára.  Heima í Danmörku er Julie í Asserberg golfklúbbnum.

Sem áhugamaður var Julie í danska golflandsliðinu 1998-2004.  Julie sigraði m.a. á Colorado Women’s Open og Mexico Women’s Open árið 2004. Hún spilaði árið 2005 á Nykredit Masters á LET í boði styrktaraðila og lauk keppni T-26.

Julie var í bandaríska háskólagolfinu en hún er með BA gráðu í markaðsfræði frá University of Tulsa.

Julie gerðist atvinnumaður í golfi 2004. Hún hefir verið á LET í 8 ár frá árinu 2006 og er besti árangur hennar í móti einn T-5 árangur (þ.e. hún deildi 5. sætinu með öðrum kylfingum). Árið 2010 spilaði Julie á LET Access og sigraði það ár á Murcia Ladies Open.

Meðal áhugamála Julie eru tennis, íþróttir almennt og lestur góðra bóka.