Ragnheiður Jónsdóttir | október. 19. 2012 | 15:00

Nýju stúlkurnar á LET 2012 (25. grein af 34): Elena Giraud

Franski kylfingurinn Elena Giraud  er ein af 7 stúlkum sem varð í 9. sæti í Q-school í La Manga fyrr á árinu. Búið er að kynna 5 kylfinga, í dag verður Elena kynnt og síðan að síðustu verður Maria Beautell frá Spáni kynnt á morgun. Eftir það á aðeins eftir að kynna þær 8 stúlkur sem urðu í efstu sætunum.

Elena Marie Giraud fæddist í Frakklandi 8. janúar 1986 og er því 26 ára. Hún býr í París. Giraud byrjaði að spila golf 2 ára þegar hún fór á golfvöllinn með pabba sínum. Þjálfari hennar í dag er Emmanuel Ducret. Golfklúbburinn sem hún er félagi í, heima í Frakklandi Mont Griffon. Til þess að skoða heimasíðu klúbbsins SMELLIÐ HÉR:  …. en vert er að hafa í huga fyrir þá sem fara til Parísar að golfklúbburinn, sem er í Norður-París er aðeins um 15 mínútna akstur frá Paris Roissy Charles de Gaulle flugvellinum.

Elena Giraud var sem áhugamaður 3 sinnum franskur meistari og í 2. sæti á Championship of Europe 2005.  Þann 19. desember 2007 gerðist Giraud atvinnumaður. Hún hefir verið á Evrópumótaröð kvenna frá árinu 2009 en hefir á hverju ári þurft að endurnýja kortið sitt í Q-school, sem hefir tekist hingað til.

Varðandi Giraud skal loks látið duga að minnast á að helsti styrktaraðili hennar er Lacoste og helstu áhugamál Giraud eru lestur góðra bóka, kvikmyndir og að ferðast.