Ragnheiður Jónsdóttir | september. 16. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2020: Scott Harrington (10/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour. Nú verða kynntir „nýju strákarnir“ keppnistímabilið 2019-2020 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Korn Ferry Tour eftir 2018-2019 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 3 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Korn Ferry Tour Finals.

Fyrst verða kynntir þeir 25, sem urðu efstir á stigalista Korn Ferry Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour, fyrst var kynntur sá sem varð í 25. sæti og rétt slapp inn á mótaröðina og síðan endað á þeim sem landaði 1. sæti stigalistans, Scottie Scheffler, með 2935 stig.

Síðan verða kynntir þeir 25 sem komust á PGA Tour gegnum Korn Ferry Tour Finals.

Í dag verður kynntur sá kylfingur, sem varð í 16. sæti eftir reglulega tímabilið, Scott Harrington, sem var með 977 stig á stigalista Korn Ferry Tour.

Scott Harrington fæddist 16. nóvember 1980 í Eugene, Oregon og er því 39 ára.

Hann lék í bandaríska háskólagolfinu og útskrifaðist frá Northwestern University 2003 með gráðu í samskiptum (ens.: communication).

Scott Harrington byrjaði að spila golf með foreldrum sínum, Bob og Mary, sem bæði eru liðtækir kylfingar. Faðir hans Bob, spilaði m.a. á 2003 US Senior Open, sem áhugamaður og hann (pabbinn) er fyrrum forseti golfsambands Oregon ríkis.

Scott Harrington spilaði píanó í 11 ár og tók þátt í fjölmörgum píanókeppnum.

Hann styður öll lið í Portland, Ohio.

Áhugamál Scott utan golfsins eru að vera í ræktinni, lestur, kvikmyndir og íþróttir almennt.

Scott komst á forvera Korn Ferry Tour árið 2004 og hefir spilað þar mestmegnis síðan. Árið 2019 varð hann eins og segir í 16. sæti stigalistans og spilar nú meðal þeirra bestu í heimi á bandarísku PGA Tour.