Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 17. 2018 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2018: Jonathan Byrd (49/50)

Það voru 25 efstu á peningalista Web.com Tour sem hlutu kortin sín og þar með fullan spilarétt á PGA Tour, keppnistímabilið 2017-2018.

Golf 1 hefir haft þann vana á undanförnum árum að kynna alla þessa 50 nýju og ekki svo nýju, sem hins vegar hljóta spilarétt sinn að nýju á PGA Tour í gegnum 2. deildina, Web.com Tour.

Byrjað var á því að kynna þá 25 sem efstir voru á peningalista Web.com Tour og hlutu þannig kortin sín í 1. deild, PGA Tour.

Líkt og venja er hér á Golf 1 var byrjað að kynna þann, sem rétt slapp inn í gegnum peningalistann og síðan endað á þeim sem var á toppnum. Hann hefir þegar verið kynntur, Chesson Hadley, efsti maður á peningalista Web.com Tour 2017. Það sama hefir verið gert við þá sem komust á PGA gegnum Finals.

Nú á bara eftir að kynna þá tvo sem urðu á toppnum í Web.com Finals. Sá sem var í 2. sæti og komst inn á PGA Tour í gegnum Web.com Tour finals er bandaríski kylfingurinn Jonathan Byrd en hann var með verðlaunafé á Web.com Finals upp á samtals $185,480.

Jonathan Byrd fæddist í Anderson, Suður-Karólínu, 27. janúar 1978 og verður því 40 ára eftir 10 daga.

Pabbi Byrd, sem lést úr krabbameini í heila 2009, kenndi Jonathan og bróður hans Jordan golf þegar þeir voru 3 ára. Eldri bróðir Jonathan, Jordan er aðstoðargolfþjálfari í Clemson. Jonathan var kylfusveinn Jordan 2008 í  U.S. Mid-Amateur. Jordan hefir líka af og til verið kylfusveinn fyrir bróður sinn á PGA.

Meðal félaga Byrd í háskóla eru þeir  Lucas Glover, Charles Warren og D.J. Trahan.

Byrd missti kaddýinn sinn, Chuck „Brooksie“ Hoersch, þegar sá dó úr krabbameini í júlí 2012.

Jonathan Byrd er ekki sá hávaxnasti; er 1,75 m og kvæntur konu sinni Amöndu.

Þau búa á Simmons Island í Georgíu og eiga þrjú börn: Jackson, Caroline og Kate. 

Meðal áhugamála Byrd utan golfsins er að leika sér með börnunum sínum, drekka kaffi, horfa á kvikmyndir, vera í ræktinni og sjá um golfháskólastyrki – College Golf Fellowship.

Árið 1999 var Byrd í Walker Cup liði Bandaríkjanna.

Byrd var í Clemson University og útskrifaðist þaðan árið 2000 með gráðu í markaðsfræðum (ens.: marketing).

Sama ár og Byrd útskrifaðist úr háskóla (2000) gerðist hann atvinnumaður í golfi.

Hann komst fyrst á  Web.com Tour 2001 og PGA Tour 2002 og hefir verið að spila á mótaröðunum til skiptis.

Jonathan Byrd á í beltinu 5 sigra á PGA Tour:

2002 Buick Challenge
2004 B.C. Open
2007 John Deere Classic
2010 Justin Timberlake Shriners Hospitals for Children Open
2011 Hyundai Tournament of Champions

Jonathan Byrd hefir auk þess tvívegis sigrað á Web.com Tour þ.e. hann sigraði á BUY.COM Charity Pro-Am at The Cliffs árið 2001 og var sigurvegari Web.com Championship 2017 – lokamóts Web.com Finals – og gulltryggði sér þar með sæti á PGA Tour í gegnum Finals og spilar nú að nýju á mótaröð þeirra bestu PGA Tour keppnistímabilið 2017-2018.

Á ferli sínum hefir Byrd unnið sér inn um 19 milljónir bandaríkjadala.