Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 22. 2013 | 16:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2014: John Hahn – (21/27)

Í dag verður byrjað að kynna þá 3  stráka, sem deildu  5.-7.  sæti í Q-school Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á Catalunya golfvellinum, í Girona, á Spáni, 10.-15. nóvember 2013.

Þetta voru þeir John Hahn, Adrien Saddier og Michael Lundberg.

Allir léku þeir á samtals 13 undir pari, 415 höggum og hlutu € 5.240,- í verðlaunafé.

Í dag verður bandaríski kylfingurinn John Hahn kynntur en hann varð í 7. sæti í Q-school, lék á (66 66 73 68 71 71).

John Hahn var í hóp Bandaríkjamanna sem voru næstfjölmennastir strákanna 27 sem komust á Evrópumótaröðina eða 4, næstir á eftir enskum kylfingum sem voru fjölmennastir eða 5. Hinir 3 bandarísku kylfinganna, sem ásamt Hahn spila á Evrópumótaröðinni keppnistímabilið 2014 eru: Connor Arendell, sem kynntur var í gær og varð í 8. sæti, Brinson Paolini og Jason Knutzon.

John Hahn fæddist í Colombus, Ohio,  2. júní 1989 og er því 24 ára, en býr nú í Palm Beach Gardens, Flórída, þar sem hann er félagi í The Dye Preserve.

Hann byrjaði að spila golf aðeins 2 ára, þ.e. sveiflaði kylfu með hjálp föður síns, sem vann hjá Titleist í 20 ár. Hann spilaði undir pari í fyrsta sinn þegar hann var 12 ára.  Hahn var síðan þrívegis All-American í Kent State University í Ohio og komst á Opna bandaríska í Merion golfklúbbnum í gegnum úrtökumót, sem haldið var.

Sem táningur var John Hahn líka í hafnarbolta og var þar undir áhrifum afa síns, Babe Hahn, sem spilaði fyrir Philadelphia Phillies.

Hahn var hvattur áfram af góðum árangri vina sinna Peter Uihlein og Brooks Koepka, og það varð til þess að hann reyndi fyrir sér í Evrópu.  Hann vann svo sannarlega fyrir veru sinni á Evróputúrnum því hann var ein af aðeins 6, sem fóru í gegnum öll 3 stig úrtökumótsins.  Hann sigraði m.a. 1. stigs úrtökumótið í Fleesensee, Þýskalandi og varð sem segir í 7. sæti á lokaúrtökumótinu í Girona.

Meðal áhugamála Hahn utan golfsins eru allt sem lýtur að tækni og vísindum og eins að lesa uppáhaldsbók sína ‘Les Miserables’ eftir Victor Hugo.

Þess hefir orðið vart að John Hahn hafi verið ruglað saman við James Hahn, en sá síðarnefndi var meðal 25 efstu stráka á Web.com mótaröðinni 2012 og spilaði á PGA Tour á þessu ári, þar sem hann sló m.a. í gegn með „fugladansinum.“  John og James er sitthvor kylfingurinn og engir skyldleikar milli þeirra.