Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 10. 2018 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2018: Marcel Schneider (9/33)

Það voru 33 kylfingar sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í gegnum lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 11.-16. nóvember sl. á Lumine golfstaðnum á Spáni.

Það voru 25 efstu og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu, sem tryggðu sér keppnisrétt.

9 kylfingar deildu með sér 25. sætinu í ár; léku allir hringina 6 á samtals 13 undir pari.

Í dag verður Marcel Schneider frá Þýskalandi kynntur en hann var einn af þeim 9 heppnu síðustu, sem hlutu kortið sitt en  allir hinir Justin Walters, Ben Evans, Christiaan Bezuidenhout, Felipe Aguilar, Jazz Janewattananond, Gavin Moynihan, Matthew Nixon og Cristofer Blomstrand hafa þegar verið kynntir.

Marcel Schneider fæddist í Bietigheim – Bissingen í Þýskalandi, 6. febrúar 1990 og er því 27 ára.

Hann átti stjörnu áhugamannsferil – sigraði m.a. 2012 á Australian Amateur Championship og var í 6. sæti á heimslista áhugamanna

Sem stendur er Schneider nr. 795 á heimslistanum.

Hann spilaði fyrst á minni mótaröðum og sigraði m.a. á Pro Golf Tour árið 2014 og var á toppi stigalistans það ár sem varð til þess að hann komst á Áskorendamótaröð Evrópu 2015.

Schneider hefir á hverju ári, frá 2012 tekið þátt í lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar og í ár tókst honum ætlunarverk sitt … hann spilar meðal þeirra allra bestu í Evrópu á Evrópumótaröðinni; búinn að tryggja kortið sitt.

Í Þýskalandi er Marcel Schneider félagi í Green-Golf Bad Saulgau golfklúbbnum.

Meðal áhugamála Schneider utan golfsins eru bílar, rafeindafræði og multimedia.

Fræðast má nánar um Schneider með því að líta á vefsíðu hans SMELLIÐ HÉR: