Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 17. 2018 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2018: Henric Sturehed (11/33)

Það voru 33 kylfingar sem tryggðu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í gegnum lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór dagana 11.-16. nóvember sl. á Lumine golfstaðnum á Spáni.

Það voru 25 efstu og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu, sem tryggðu sér keppnisrétt.

Nú hafa verið kynntir þeir 9 sem deildu 25. sætinu og rétt sluppu inn á Evróputúrinn.

Í gær var enski kylfingurinn Jonathan „Jigger“ Thomson kynntur til sögunnar og í dag er það Henric Sturehed, en þeir eru tveir af 7 sem deildu 18. sætinu. Þessir 7 spiluðu allir á samtals 14 undir pari.

Henric Sturehed fæddist 9. október 1990 í Linköping í Svíþjóð og er því 27 ára. (N.B: Hann á sama afmælisdag og Annika Sörenstam!!!)

Sturehed gerðist atvinnumaður í golfi tvítugt þ.e. 2011.

Sturehed spilaði á Nordic Golf League, líkt og margir íslenskir kylfingar s.s. Axel Bóasson og Haraldur Franklín og hann sigraði í einu móti á mótaröðinni 2014; Landeryd Masters.

Árið 2017 keppti Sturehed á MENA Golf Tour þar sem hann sigraði á MENA Tour Championship og varð þar með 4. Svíinn til þess að sigra á mótaröðinni eftir þeim: Per Barth, Christofer Blomstrand og Fredrik From.

Sturehed varð í 2. sæti á stigalista MENA Tour og ávann sér þar með kortin á Sólskinstúrnum suður-afríska og 2. deild Asíutúrsins (ens.: Asian Development Tour) auk þess keppnisrétt á Omega Dubai Desert Classic og KLM Open á Evróputúrnum.

Sturehed hefir hins vegar rétt til að spila í miklu fleiri mótum þar sem hann er einn hinna 33 sem áunnu sér kortið sitt á Evróputúrnum 2018 í lokaúrtökumótinu.

Fyrsta mót Sturehed á Evróputúrnum var því ekki KLM Open heldur hefir hann þegar spilað á AfrAsia Bank Mauritius Open.